Öryggi vöru og opinber markaðsgæsla

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 17:18:49 (5553)

2004-03-18 17:18:49# 130. lþ. 86.6 fundur 734. mál: #A öryggi vöru og opinber markaðsgæsla# (EES-reglur, gildissvið) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum. Málið er á þskj. 1090 og er 734. mál þingsins.

Frumvarpið miðar að því að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópuþingsins 2001/95/EB frá 3. desember 2001, um öryggi vöru.

Tilskipunin felur í sér endurskoðun á eldri tilskipun 92/59/EBE frá 29. júní 1992, um öryggi framleiðsluvöru, en gildandi ákvæði laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eru íslensk innleiðing á ákvæðum þeirrar tilskipunar.

Við endurskoðun tilskipunarinnar hefur verið höfð hliðsjón af þeirri reynslu sem eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu hafa fengið á undanförnum árum við framkvæmd eftirlits með vörum og þjónustu sem veitt er í tengslum við þær, samanber ákvæði núgildandi laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

Í frv. því sem ég mæli hér fyrir er því að finna ýmsar endurbætur á gildandi lagaákvæðum um öryggi vöru sem innleiða þarf vegna endurbóta sem gerðar hafa verið á tilskipuninni um öryggi vöru.

Á framleiðendum og dreifingaraðilum hvílir sú almenna skylda að framleiða og markaðssetja einungis vöru sem ekki geti valdið hættu eða tjóni fyrir neytendur sem jafnframt uppfylla evrópska staðla um hættueiginleika vöru þegar það á við.

Á meðal einstakra nýmæla í frv. má nefna að þar er nú að finna skýrari ákvæði um að vara telst vera örugg ef hún er framleidd í samræmi við evrópska staðla sem gilda um öryggi vöru og hafa verið samþykktir og birtir á Evrópska efnahagssvæðinu. Evrópskir öryggisstaðlar eru unnir af evrópsku staðlasamtökunum á grundvelli umboðs frá framkvæmdastjórninni og verða þeir birtir hér á landi og í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir aukinni upplýsingaskyldu af hálfu framleiðenda og dreifingaraðila um hættueiginleika vörunnar. Einnig ber þeim að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að afturkalla vörur sem hafa komið á markað og í ljós hefur komið að geti valdið hættu fyrir neytendur og almenna kaupendur vörunnar. Framleiðendum og dreifingaraðilum ber sem fyrr segir að gæta þess að vörur sem þeir markaðssetja uppfylli þær kröfur sem t.d. staðlar gera varðandi öryggi vörunnar. Samkvæmt reglum staðla ber framleiðendum og dreifingaraðilum að tryggja sönnun fyrir því að vörur uppfylli gildandi kröfur með útgáfu skjala eða svonefndra samræmisyfirlýsinga þar sem skjalfest er hvernig kröfur staðla hafa verið uppfylltar um öryggi vörunnar. Það veitir þeim einnig heimild og skyldu til að merkja vörurnar með svonefndu CE-merki.

Í því frv. sem ég mæli fyrir er kveðið skýrt á um að á framleiðendum og dreifingaraðilum hvíli skylda til geymslu á skjölum sem tengjast vörunni. Framangreint ákvæði tryggir einnig að unnt verður að rekja feril hættulegrar vöru sem eftirlitsstjórnvöld telja að eigi að afturkalla af markaði af einhverjum ástæðum sem varða öryggiseiginleika vörunnar. Auk þess er lagt til að skylda verði lögð á framleiðendur og dreifingaraðila að upplýsa eftirlitsstjórnvöld um að vara sem sett hefur verið á markað sé hættuleg eða verulega áhætta geti fylgt notkun hennar án frekari öryggisráðstafana eða úrbóta af hálfu framleiðenda eða dreifingaraðila.

Til að stuðla að betri neytendavernd og auka öryggi almennings er í frv. lagt til að heimilt verði með ákvæðum í reglugerð, sem sett er að fenginni umsögn eftirlitsstjórnvalda, að krefjast þess að aðvaranir og upplýsingar um hættueiginleika vöru séu á íslensku enda geti notkun haft með sér áhættu fyrir neytendur við tiltekin skilyrði sem nauðsynlegt er að veita þeim upplýsingar um á þeirra eigin móðurmáli.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frv. og ég hef gert grein fyrir snúa þó ekki einungis að því að aðlaga íslensk lög að fyrrgreindri tilskipun um vöruöryggi. Í frv. er einnig lagt til að gildissvið laganna verði fært út þannig að þau nái einnig til þjónustu en ekki einungis til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti eins og gert er í gildandi lögum um öryggi vöru. Þessi tillaga er í samræmi við lagaþróun á Norðurlöndum en einnig á sér stað umræða í þessa átt á vettvangi Evrópusambandsins.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið umfjöllun minni um þetta frv. sem varðar öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.