Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 13:59:28 (5598)

2004-03-23 13:59:28# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Gunnar Örlygsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að færa þetta mál til umræðu í þinginu.

Hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni áðan að ríkisstjórn Joses Marias Aznars hefði lagt mikið af mörkum í baráttu sinni við hryðjuverk í alþjóðlegu samhengi. Þetta má vera rétt hjá honum og ég efast ekki um að allir í þessum sölum hafi sama metnað og allar þjóðir heims, að uppræta hryðjuverk í heiminum. En fyrst og fremst er þetta spurning um aðferðafræði.

Hryðjuverkin í Madríd hinn 11. mars sl. eru svívirðilegt óhæfuverk þar sem lífi saklausra borgara var fórnað. Aukið hatur öfgafullra múslima á vestrænum siðum og vestrænum þjóðum hefur sannarlega litað nútímamannkynssögu blóði og hryllingi. Risaveldið Bandaríkin, smáríkið Ísland og vel á þriðja tug annarra þjóða hafa talið rétt að svara slíkum óhæfuverkum með umfangsmiklum stríðsrekstri þar sem lífum þúsunda saklausra borgara hefur verið fórnað. Áhrif þeirra mistaka hafa nú endurspeglast á síðustu missirum. Hatur enn fleiri múslima á hinum vestræna heimi hefur aukist eftir innrásina í Írak og ég leyfi mér að fullyrða að heil kynslóð hættulegra hryðjuverkamanna sé raunin og aldrei hafi heimsbyggðinni staðið meiri ógn af hryðjuverkum en nú, heilu ári eftir innrásina í Írak.

Rót vandans er áralangar erjur Ísraelsmanna og palestínsku þjóðarinnar. Það hlýtur að liggja í augum uppi eftir þær löngu hatrömmu deilur að stríð og hryðjuverk komi ekki á þeim friði í veröldinni sem við öll viljum að verði framtíð barna okkar. Íslensk þjóð, þjóð sem ávallt hefur staðið vörð um friðinn, rataði í villigötur á síðasta ári. Ég tel að það hafi verið ráðandi öflum í okkar landi til mikils vansa að hunsa íslenskt samfélag með eins afgerandi hætti og raunin varð á síðasta ári. Ógnin af óhæfuverkum hryðjuverkamanna stendur okkur nær en nokkurn tíma fyrr.

Ég votta spænskri þjóð mína dýpstu samúð.