2004-04-16 11:02:32# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að nánast sá eini sem hefur treyst sér hingað í ræðustól til að verja gerðir hæstv. dómsmrh. er hæstv. fyrrv. landbrh., Halldór Blöndal, sem hefur sjálfur brotið jafnréttislög við stöðuveitingar og fengið á sig dóm í Hæstarétti um það. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherrar Sjálfstfl. ganga á svig við jafnréttislög því það er ekki lengra síðan en 3--4 ár að fyrrv. dómsmrh., Sólveig Pétursdóttir, gekk fram hjá þremur konum við skipan í starf hæstaréttardómara.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hverju vill hann breyta í jafnréttislögunum? Er ráðherra ósammála hæstv. félmrh. sem telur að engin ástæða sé til að endurskoða jafnréttislögin? Formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna telur lögin bera vott um framsýni löggjafans og það er alveg hárrétt hjá henni. En hæstv. dómsmrh., sem hefur fótumtroðið jafnréttislögin, kemur hingað upp eins og engill með geislabaug og segist ekkert hafa gert af sér. Hæstv. ráðherra skammast sín ekki einu sinni fyrir það sem hann hefur gert.

Viðhorf hæstv. ráðherra til jafnréttismála er afturhvarf til fortíðar og er hættulegt jafnréttisbaráttunni. Ég tel að jafnréttisfulltrúi dómsmrn. ætti að taka hæstv. dómsmrh. í kennslustund og kenna honum jafnréttislögin þannig að hann sé ekki að lesa þau aftur á bak. Ég vil minna hæstv. ráðherra á það að Guðrún Erlendsdóttir túlkaði jafnréttislögin fyrir meira en aldarfjórðungi þannig, sem nú er dómvenja, að ef sú staða kemur upp að karl og kona sækja um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er alls ráðandi og bæði tvö hafa sömu hæfileika og menntun til að bera skuli veita þeim aðila starfið sem er af því kynferði sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein. En hæstv. ráðherra skilur ekki að jafnréttislögin eru þannig úr garði gerð að hæfni á fyrst og fremst að ráða ferðinni þegar karl og kona sækja um starfið.

Í Svíþjóð hafa ráðherrar verið settir á skólabekk til að uppfræða þá um jafnréttislögin. Hæstv. ráðherra ætti að taka sér tíma í að lesa jafnréttislögin með öðrum gleraugum en hann hefur gert hingað til.