Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:58:51 (6622)

2004-04-23 12:58:51# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:58]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég og hv. þm. erum greinilega ósammála um það hvort ráðherra eigi að hafa sérstakar heimildir til þess að grípa inn í varðandi húsbyggingar og hérna er sérstaklega talað um fjallaskála. Það er alveg rétt að frv. snýst um vatnsvernd, það snýst ekki að meginstofni til um húsbyggingar. En þetta tengist saman.

Þegar menn reisa sér hús þarf t.d. að huga vel að frárennsli og það eru alls konar umsvif sem geta tengst fjallaskálum. Fólk er að fara á vélsleðum frá þeim í snjó og í gönguferðir þannig að það eru alls konar umsvif sem tengjast húsbyggingum.

Eins og menn vita eru nú þegar hús á svæðinu, sumarbústaðir, og það eru heimildir til þess að gera mjög strangar kröfur, eins og hv. þm., Magnús Þór Hafsteinsson, styður greinilega. Hann vill mjög strangar reglur um mengun. Það er líka sérstakur inngripsréttur þannig að ég átta mig ekki á því af hverju hv. þm. er ósammála því að hægt sé að grípa sérstaklega inn í varðandi húsbyggingarnar. Varðandi dagsektirnar getur umhvn. skoðað hvort þetta séu eitthvað óeðlilega lágar dagsektir miðað við þær sem eru almennt teknar í hliðstæðum málum. Í sambandi við faglegt mat á því hvort taka eigi niður Steingrímsstöð eða ekki hefur ekkert slíkt mat farið fram og við höfum ekki verið beðin um að koma þeirri þáltill. í gagnið sem hér hefur verið vitnað til og ég þekki reyndar ekki og hef ekki kynnt mér nýlega. Forsrn. hefur oft passað upp á að þáltill. fari í réttan farveg en ég kannast samt ekki við þá sem hér er verið að drepa á.