Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:01:05 (6623)

2004-04-23 13:01:05# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:01]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég legg til að hæstv. umhvrh. kynni sér þá þál. sem samþykkt var á hinu háa Alþingi þann 3. mars árið 1998. Að þeirri þál. stóðu hvorki meira né minna en þrír menn. Tveir af þremur þáv. hv. þm. eru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands í dag. Það eru hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson og hæstv. sjútvrh. Árni M. Mathiesen (Gripið fram í: Og tilvonandi ráðherra líka.) Og svo kannski einn tilvonandi ráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hann var líka meðflm. að þessari tillögu. Og á þeim tíma --- ég er með þær umræður fyrir framan mig á pappírum og þetta er enginn smábunki --- fóru fram nokkuð fjörugar umræður í þinginu einmitt um urriðastofninn í Þingvallavatni. Mér finnst þess vegna afskaplega undarlegt að ekki skuli hafa verið gert neitt því ef maður kynnir sér málið, og ég hvet hæstv. umhvrh. til að gera það, bregða sér kannski bæjarleið og fara austur að Þingvallavatni og skoða Steingrímsstöð og velta því svolítið fyrir sér --- og lesa bækurnar sem ég benti á áðan --- hversu ofboðslega gott sóknarfæri þetta væri fyrir alla umhverfisvernd í landinu. Þarna mundum við sýna fram á að hægt er að gera slíkar framkvæmdir afturkræfar. Það er hægt að endurheimta náttúruperlur þó að við höfum gert mistök, eins og við gerðum greinilega í þessu tilfelli. Við værum ekki að fórna miklu, ég held að við værum að vinna svo miklu, miklu meira. Við værum að ná að endurreisa þarna eina stærstu á og eitt mesta vatnsfall landsins.

Ég sé að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er kominn í salinn. Hann veit miklu meira um þetta en ég og það væri kannski gaman að fá að heyra svolítið af skoðunum hans í málinu, hvort hugur hans til Þingvallaurriðans hafi eitthvað breyst á undanförnum árum og hvort hann sakni þess ekki að sú nefnd sem átti að skipa að hans tillögu m.a. skuli ekki enn þá vera komin á koppinn.