Málefni aldraðra

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 16:57:58 (6679)

2004-04-23 16:57:58# 130. lþ. 101.10 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv. 38/2004, Frsm. minni hluta ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þá einstaklinga sem nú eru á biðlistum eftir hjúkrunarheimilum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, þá hefur hjúkrunarmat farið fram og því rétt að þeir þurfa á hjúkrunarþjónustu að halda. En ef við lítum til framtíðarinnar þá er brýnt að skoða uppbygginguna með það í huga að hægt verði að draga úr hjúkrunarþjónustu á stofnunum. Til þess þarf, eins og ég sagði áðan, að byggja upp heilsugæsluna með fleiri stöðugildum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og eins að efla félagsþjónustu sveitarfélaganna. Hún gæti sinnt þeim verkum betur og markvissar en er í dag með aukinni heimaþjónustu. Einstaklingar gætu verið miklu lengur heima, meira lasburða en tíðkast hefur.

Hvað varðar rekstrarkostnaðinn þá er það rétt að það er ekki lagt til að sveitarfélögin taki þátt í rekstrarkostnaði. Ég tel hins vegar að með því að hafa umrætt ákvæði inni, sem snertir einkarekstur og rekstur félagasamtaka á hjúkrunarheimilum, sé nær víst að aukinn þrýstingur verði settur á þátttöku sveitarfélaganna á þessu sviði umfram það sem verið hefur.