Kirkjugripir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:24:24 (6708)

2004-04-23 19:24:24# 130. lþ. 101.19 fundur 434. mál: #A kirkjugripir# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:24]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Mig langar til að gera eina athugasemd við þessa þáltill. Ég vil fá að hefja mál mitt á að vitna í það sem haft er í greinargerð eftir dr. Sigurbirni Einarssyni biskupi í bókinni Haustdreifar. Þar segir hann m.a. þegar hann talar um það af hverju gripirnir voru fjarlægðir úr kirkjunum, með leyfi forseta:

,,Segja má að þetta hafi verið ill nauðsyn. Án efa hafa munir með þessu móti bjargast úr klóm erlendra og innlendra kirkjuræningja og úr loppnum lúkum umsjármanna, fátækra jafnt að augum og smekkvísi.``

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að skoða þessa þáltill. um kirkjugripi og að íhuga ætti að skila þeim aftur til þeirra kirkna þar sem þeir voru upphaflega eða afhenda þau söfnum heima í héraði að ég horfði ekki alls fyrir löngu á sjónvarpsþátt um listmuni á Ítalíu. Þar kom fram að árlega hverfa listmunir í þúsundatali á Ítalíu. Þeim er stolið og þeim er aðallega stolið úr kirkjum og klaustrum. Gengi fara um rænandi og ruplandi. Sérsveit innan ítölsku lögreglunnar vinnur bara við það og ekkert annað að reyna að finna þessa muni aftur.

Mig langar í framhaldi af þessu að koma með athugasemd. Ef við gerðum þetta, færðum þessa verðmætu muni sem kannski eru nú á söfnum og því miður ekki nógu aðgengilegir fyrir flest fólk --- þeir eru þó á söfnum, öruggir og vonandi geymdir við viðunandi aðstæður --- hversu vel getum við þá tryggt að þessir munir verði öruggir í kirkjum vítt og breitt um landið? Nú geri ég ráð fyrir að margar af þessum kirkjum séu litlar sveitakirkjur, kannski á tiltölulega fáförnum stöðum, og að þessar kirkjur séu lítt vaktaðar. Hugsanlega væri því hægt um vik fyrir óprúttna aðila að brjótast inn, stela þessum munum og selja þá því það er vitað mál að hægt er að fá mikið fé fyrir þessa muni, t.d. erlendis. Antíkmarkaðurinn er mjög stór.

Það var fyrst og fremst þetta sem mig langaði til að benda á og reyna að fá einhverja umræðu um og vekja menn til umhugsunar. En svo er líka annað og það er hversu vel kirkjurnar vítt og breitt um landið séu í stakk búnar til að varðveita viðkvæma listmuni? Þá er ég að tala um hluti eins og rakastig, hitastig og annað þess háttar. Ég er ekki að mæla því mót að þetta verði gert, alls ekki. Ég tel að þessi þáltill. sé mjög þörf og ágæt á allan hátt. En þessa hluti tel ég að við ættum að íhuga gaumgæfilega, ekki rasa um ráð fram því margir girnast þessa gripi, því miður.