Samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:41:45 (6827)

2004-04-27 14:41:45# 130. lþ. 104.4 fundur 628. mál: #A samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EMS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson):

Herra forseti. Sú fyrirspurn sem ég hef lagt fyrir hæstv. iðnrh. er með þeim ósköpum gerð að í raun er hún úrelt vegna þess að það sem hér er spurt um er liðið, þ.e. búið er að ganga frá samningi varðandi þá rannsókn sem spurt er um. Engu að síður taldi ég rétt að halda fyrirspurninni til streitu til þess að að fá nánari upplýsingar um þetta ágæta mál.

En ástæða þess að fyrirspurninni er svarað svo seint sem raun ber vitni er eiginlega margþætt, þ.e. bæði vegna þess að ég sem fyrirspyrjandi hef ekki ætíð getað lagt fyrirspurnina fram á fyrirspurnatíma og síðan hefur hæstv. ráðherra af ýmsum ástæðum ekki getað svarað fyrr en nú.

Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hvað líður undirbúningi rannsókna á samfélagslegum áhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi, sbr. þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 11. mars 2003?``

Þingsályktunin sem hér um ræðir er einstök að því leytinu til að hún var eina tillagan sem tengdist álsvers- og virkjunarframkvæmdum sem í þessum sal var samþykkt samhljóða. Hún er merkileg fyrir þær sakir að gert er ráð fyrir að fylgst sé með samfélagi manna eystra sem tengist þessum framkvæmdum, en lög gera ráð fyrir að fylgst sé á sambærilegan hátt með ýmsum öðrum áhrifum sem verða af þessum framkvæmdum. Ætlunin með þessu er að reyna að auka hin jákvæðu áhrif eins og kostur er og reyna að draga sem mest úr hinum neikvæðu. Þess vegna slæmt er að ekki tókst að koma þessari rannsókn af stað strax um áramótin síðustu eins og gert var raunverulega ráð fyrir í þingsályktunartillögunni. Það er slæmt að tafir verði vegna þess að það dregur úr upplýsingagildinu, þ.e. að geta borið betur saman hvernig hlutirnir voru áður en framkvæmdirnar hófust og síðan hvaða áhrif þær hafa haft.

Það er einnig fróðlegt, herra forseti, að fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hvernig þessi rannsókn er framkvæmd. Byggðarannsóknastofnun í samvinnu við Þróunarstofu Austurlands mun sjá um þessa rannsókn. Hún verður býst ég við mjög viðamikil. En ég vona að hæstv. ráðherra fræði þingheim nánar um hvað í þessari rannsókn felst. Miðað við áætlanir sem gerðar voru af Byggðarannsóknastofnun í upphafi átti þetta að vera viðamikil rannsókn og standa í fjölda ára. Ég hef grun um það, herra forseti, að eitthvað hafi dregið úr magninu en að náðst hafi þó viðsættanleg lending sem hæstv. ráðherra mun greina okkur nánar frá í svari sínu hér á eftir.