Störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:14:08 (6843)

2004-04-27 15:14:08# 130. lþ. 104.5 fundur 794. mál: #A störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég fagna umræðunni og er einn þeirra sem eru stoltir af höfuðborginni okkar. Við eigum að passa okkur á því að stilla ekki alltaf höfuðborginni sem andstæðing við landsbyggðina. Á sama hátt megum við líka passa okkur á því að stilla ekki þéttbýliskjörnum vítt og breitt um landið sem andstæðingum við sveitirnar. Langt því frá, við getum ekki án þéttbýlisins verið og við getum heldur ekki án sveitarinnar verið. Við megum ekki gleyma því að undirstaða búsetu er atvinna og atvinnumöguleikar og alveg ljóst að landsbyggðin á heilmikla möguleika í því sambandi og við þurfum að hjálpa til í þeim efnum.

Það hefur vel tekist til með flutning á ýmsum ríkisstofnunum, eins og t.d. Skógrækt ríkisins á Egilsstöðum, sem er myndarleg stofnun. Í Gunnarsholti er Landgræðsla ríkisins og þar vinna fjölmargir vísindamenn. Ég nefni Landmælingar ríkisins á Akranesi, sem er mjög myndarleg stofnun, Viðskiptaháskólann á Bifröst o.fl. Undirstaðan er atvinnan og möguleikarnir.