Samkeppnisstofnun

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:30:42 (6850)

2004-04-27 15:30:42# 130. lþ. 104.6 fundur 721. mál: #A Samkeppnisstofnun# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Mörður Árnason:

Forseti. Það er mikilvægt að hæstv. viðskrh. noti það tækifæri sem henni gefst hér til að skýra okkur frá því hvernig hún hyggst efla Samkeppnisstofnun enn frekar. Við fögnum auðvitað þessari gríðarlegu hækkun á fjárframlögum til Samkeppnisstofnunar á árunum 2000--2004, úr 118 millj. kr. í heilar 157 millj. kr., hafi ég heyrt rétt frá hæstv. ráðherra áðan. Þetta er auðvitað stórkostlegt stökk á fjórum árum, að ég tali ekki um hvað þetta er í prósentum, sem ég get ekki reiknað út hér og nú.

Það var allt rétt sem hæstv. ráðherra sagði um hlutverk Samkeppnisstofnunar og hefði jafnvel mátt bæta í. Það sem við þurfum að fá fram er hvað hæstv. iðnrh. hyggst leggja til að Samkeppnisstofnun fái í aukafjárveitingu í ár. Hverjar eru tillögur hennar um fjárframlög í fjárlögum næsta ár? Staðan er eins og henni var lýst. Miðað við málin sem fyrir hafa verið tekin og þau sem bíða er staðan þannig að forsvarsmenn Samkeppnisstofnunar segjast ekki geta tekið upp mál að eigin frumkvæði. En nú, í frv. sem er á leiðinni inn í þingið frá hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni, er Samkeppnisstofnun falið aukið hlutverk á alveg nýju sviði. Undir það getur stjórnarandstaðan reyndar vel tekið. Við þurfum að vita hvernig hæstv. iðnrh. ætlar að efla Samkeppnisstofnun á þessu ári og hinu næsta.