Starfsskilyrði loðdýraræktar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:50:26 (6859)

2004-04-27 15:50:26# 130. lþ. 104.7 fundur 763. mál: #A starfsskilyrði loðdýraræktar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Hér er á ferðinni mjög þarft og athyglisvert mál. Mér finnst loðdýraræktin mjög áhugaverður búskapur og mér finnst afskaplega undarlegt og hef í raun og veru aldrei skilið það af hverju sá búskapur hefur þurft að berjast svona mikið í bökkum, því að maður skyldi halda að á Íslandi væru góðar aðstæður til að stunda loðdýrarækt. Hér er nóg framboð af fóðri og eins og hv. þm. Jón Bjarnason nefndi áðan skila þessi bú, þau fáu bú sem eftir eru, umtalsverðum gjaldeyristekjum.

Mig langar til að spyrja að því hvort ekki sé ástæða til að athuga --- hæstv. landbrh. talaði um að það þyrfti að ná niður framleiðslukostnaði --- hvort ekki þyrfti hreinlega að íhuga það betur að koma einmitt upp stórum, öflugum fóðurstöðvum með trygga aðdrætti, bæði frá sláturhúsum og frá fiskiðnaði, og íhuga það líka að stækka búin og reyna þannig að ná niður framleiðslukostnaði. Það er alveg rétt sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir benti á áðan að við erum að mörgu leyti mjög vel í sveit sett landfræðilega.