Slátrun alifugla

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:01:08 (6864)

2004-04-27 16:01:08# 130. lþ. 104.8 fundur 900. mál: #A slátrun alifugla# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég hef sem landbrh. mikinn áhuga á að auka fjölbreytni landbúnaðarins. Fjölbreytni landbúnaðarins hefur sem betur fer aukist á síðustu árum. Viðbótargreinar dafna og þrátt fyrir samdrátt og fækkun búa í hefðbundnum búskap höfum við séð nýja búgarða, ný atvinnutækifæri og mikla nýsköpun eiga sér stað víða um sveitir landsins.

Hvað þá fyrirspurn varðar sem hér er lögð fram, um hve mörg sláturhús séu rekin hér á landi til að slátra alifuglum, hænsnum og aligæsum, aliöndum, alidúfum og fasönum, þá eru rekin fjögur alifuglasláturhús sem nú eru starfandi. Ekkert þeirra slátrar þessum tegundum, aligæsum, aliöndum, alidúfum né fasönum. Starfsemi þeirra snýst því mest um kjúklinginn, að ég spái.

Hv. þm. spyr síðan: ,,Hvernig hyggst ráðherra beita þeirri heimild í reglugerð um alifuglasláturhús ,,að setja sem skilyrði, að leyfishafa sé skylt að annast slátrun fyrir þá alifuglabændur sem þess óska, enda þótt þeir eigi ekki aðild að viðkomandi sláturhúsi``?``

Ég vil taka fram, hæstv. forseti, að í öllum þeim sláturhúsum sem hér starfa, sem eru einkasláturhús, er tækjabúnaður miðaður við að slátra kjúklingum. Tækjabúnaðurinn hentar ekki til slátrunar á öðrum fuglategundum, nema þá kalkúnum í einu sláturhúsinu. Því er erfitt að skylda sláturhúsin til að slátra öðrum fuglategundum.

Strangar reglur gilda um heilbrigðisástand fugla sem slátrað er í alifuglahúsunum. Eru tekin sýni af þeim á eldistíma og þau rannsökuð með tilliti til salmonellu og kampýlóbakter. Óheimilt er að slátra hópum sem jákvæð salmonellusýni greinast úr. Sláturleyfishafar eru tregir til að taka til slátrunar fugla sem aldir eru við ótryggar aðstæður. Þá eru meiri líkur á smiti með ofangreindum sýklum. Reynslan hefur sýnt að komist salmonellumengun inn í tækjabúnað alifuglasláturhúsa getur reynst erfitt að losna við hana aftur. Þess vegna hefur málið reynst snúnara en það virðist fljótt á litið. Salmonellan hefur því miður sótt dálítið í fugla hjá einstaklingum sem hafa verið með litlar andahjarðir. Þeir sem reka alifuglasláturhús, kjúklingasláturhúsin, hafa því verið mjög tregir til að opna þau fyrir slíkri slátrun. Þeir hafa hreinlega ekki sætt sig við að sæta þeirri reglu.

Af þessum ástæðum hef ég ekki talið fært að skylda sláturleyfishafa í alifuglasláturhúsum til að slátra aligæsum, aliöndum, alidúfum og fasönum, eins og heimild er fyrir í reglugerð sem hv. þm. minntist á. Ég tel það ekki fært út frá heilbrigðissjónarmiði og með tilliti til framtíðar kjúklingasláturhúsanna og auðvitað heilbrigðis fólksins í landinu. Það er hinn anginn af málinu.