Markaðssetning lambakjöts innan lands

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:14:09 (6870)

2004-04-27 16:14:09# 130. lþ. 104.9 fundur 902. mál: #A markaðssetning lambakjöts innan lands# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Undanfarin ár hefur mikið fjármagn verið lagt í markaðssetningu lambakjöts erlendis með allsendis ófullnægjandi árangri, ef horft er á árangurinn frá sjónarhorni bóndans. Hann fær sjaldnast nokkuð fyrir þau tæplega 40% af framleiðslunni sem hann eru skyldaður til að flytja út. Í besta falli fær hann það sem nemur breytilegum kostnaði við framleiðsluna. Hins vegar hefur engin áhersla verið lögð á þann eina markað sem nokkuð víst er að skili bóndanum einhverju, þ.e. innanlandsmarkað.

Á síðasta ári voru um 300 þúsund gistinætur á hótelum og gististöðum hérlendis. Hvorki hótelum né matsölustöðum barst ein einasta hvatning um að íslenskt lambakjöt yrði kynnt sérstaklega. Þaðan af síður voru þeim gerð tilboð til að hvetja til neyslu lambakjöts. Mér leikur forvitni á að vita hvort hæstv. landbrh. telur ekki mikilvægt að settur verði kraftur í markaðssetningu lambakjöts á innanlandsmarkaði og til hennar verði vandað á sambærilegan hátt og við markaðssetningu erlendis?