Markaðssetning lambakjöts innan lands

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:23:24 (6874)

2004-04-27 16:23:24# 130. lþ. 104.9 fundur 902. mál: #A markaðssetning lambakjöts innan lands# fsp. (til munnl.) frá landbrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. að það hlýtur að vera hægt að selja meira af lambakjöti hér á landi en gert er í dag. Að vísu er það alveg rétt og við vitum það öll að kjötmarkaðurinn hér á landi hefur verið að ganga í gegnum miklar hremmingar með miklu offramboði og mikilli offramleiðslu á bæði svínakjöti og kjúklingakjöti. En því miður hefur líka verið offramleiðsla á lambakjöti, (Gripið fram í.) þrátt fyrir að salan hafi eitthvað aukist.

Mig langar að spyrja hvort það sé ekki rétt, um leið og við hugleiðum hvernig við getum selt meira af lambakjöti, að hugleiða í leiðinni hvernig við getum dregið eitthvað úr framleiðslunni. Í því sambandi hefur mér oft dottið í hug svokallaðir frístundabændur vítt og breitt um landið sem eru með örfáar rolluskjátur hingað og þangað og framleiða lambakjöt. Ég heyrði einhvern tímann hæstv. landbrh. lýsa því yfir að hann teldi það vera mannréttindi að eiga sauðkind. Kannski á síðustu öld og þarsíðustu öld og á öldunum þar á undan, en varla í dag, því miður, því það þarf að torga öllu þessu kjöti. Það væri gaman að vita hvort hæstv. landbrh. telji það mannréttindi enn í dag að eiga sauðkind á Íslandi árið 2004.