Kröfur til sauðfjársláturhúsa

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:32:23 (6878)

2004-04-27 16:32:23# 130. lþ. 104.10 fundur 903. mál: #A kröfur til sauðfjársláturhúsa# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:32]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Svar mitt við þessari stóru spurningu er svohljóðandi:

Núgildandi lög um slátrun, nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat í sláturafurðum, komu í stað laga sem voru frá árinu 1966. Við gerð þeirra var tekið mið af löggjöf nágrannalandanna, einkum Danmerkur. Þegar reglugerð nr. 46/2003, um slátrun og meðferð sláturafurða, var samin var einnig tekið mið af reglum nágrannalandanna. Eðlilegt var talið að íslenskar reglur á þessu sviði, eins og á öðrum sviðum matvælavinnslu og dreifingar, væru sambærilegar við reglur í nálægum löndum. Einnig að afurðir sem dreift væri á innlendum markaði uppfylltu sömu kröfur og afurðir sem fluttar eru á erlenda markaði. Öll sláturhús skyldu uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur hvort sem þau sæktust eftir útflutningsleyfi eða ekki, enda er það sláturleyfishöfum í sjálfsvald sett hvort þeir sækjast eftir útflutningsleyfum eða ekki. Ég vil taka það fram að sú kröfugerð kom ekki síst frá bændum sjálfum, búnaðarþingi, Bændasamtökunum, og hafði verið til umræðu og umfjöllunar á landsfundi sauðfjárbænda o.s.frv. Hangandi fláning er talin hreinlegri.

Síðan, eins og hv. þm. þekkja, hefur auðvitað verið gríðarlegur vandi í rekstri afurðastöðvanna sem er hluti af því, og ríkisvaldið hefur tekið þátt í, að úrelda hús til þess að hagræða í greininni. Ég get tekið undir það í málflutningi hv. þm. að mörg þessi hús eru mikilvæg atvinnutækifæri í sumum byggðarlögum til að skapa fólkinu sem þar býr, og ekki síst sauðfjárbændunum, tekjur og við höfum auðvitað séð það breytast mjög á síðustu árum. Ég hygg að þegar ég kom fyrst inn á þing hafi húsin verið á bilinu 40--50 sem slátrað var í. Sláturlömbunum hefur fækkað um helming og húsin eru núna að komast niður fyrir tíu. Þarna hefur því orðið gríðarleg breyting hvað þetta varðar og enn eru þau rekin, mörg hver, í miklum erfiðleikum á þessum markaði.

Í löggjöf nágrannalandanna er sums staðar gert ráð fyrir tvenns konar sláturhúsum. Munurinn felst einkum í stærð húsanna og hvernig opinberu eftirliti með þeim er háttað. Hreinlætis- og heilbrigðiskröfur eru hins vegar þær sömu, óháð stærð húsanna. Í lögunum frá 1997 er ekki gert ráð fyrir tvenns konar sláturhúsum og heldur ekki í reglugerðinni þannig að lögin frá Alþingi 1997 gerðu ekki ráð fyrir þessu. Reglugerðin er þess vegna svona að því leyti, eins og ég rakti áður í ræðu minni.

Hjá Evrópusambandinu hafa reglur um matvælavinnslur verið í endurskoðun undanfarin ár og ráðgert er að nýjar reglur taki gildi þar 1. janúar 2006. Reglugerðin tekur gildi hér 2008. Samkvæmt þessum nýju reglum Evrópusambandsins eru gerðar skýrar lágmarkskröfur til allra matvælafyrirtækja, sláturhúsa jafnt sem annarra, og því ekki gerður greinarmunur á því sem telst stórt og lítið sláturhús að því er varðar framleiðslumagn. Þannig að hér er búið að marka stefnu um breytingar og menn vita þá hvað framtíðin ber í skauti sínu, að Evrópusambandið er líka að taka á í sínum málum og breyta reglum sínum horft til framtíðar.