Aðlögun mjólkuriðnaðar að kröfum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:00:49 (6892)

2004-04-27 17:00:49# 130. lþ. 104.11 fundur 904. mál: #A aðlögun mjólkuriðnaðar að kröfum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég sagði áðan að það hefði verið út af borðinu á tímabili en að nú stefndi hraðbyri aftur kannski inn í samningagerð. Síðustu upplýsingar bera vitni nýjum áhuga. Málið var í rauninni strand. En kviknað hefur nýr áhugi sem sýnir að málið getur farið að þróast áfram.

Ég vil taka undir með hv. þm. að þessir samningar geta verið afdrifaríkir og við með okkar fjölskylduvæna og góða landbúnað þurfum auðvitað að búa okkur mjög vel undir þá samninga og hvernig við getum staðið vörð um landbúnaðinn og séð hann þróast áfram.

Ég tek undir með hv. þm. Drífu Hjartardóttur að ég er sömu skoðunar og hún og Norðmenn að aðild að Evrópusambandinu væri íslenskum landbúnaði, alla vega eins og horfir, miklu hættulegri en einhver svona aðlögun og langtímaþróun. Ég hef farið um Noreg og hitt þar bæði landbúnaðarráðherra og bændur. Þeir eru þeirrar skoðunar að norskur landbúnaður dafni auðvitað best undir þeirra stjórn og stefnu heima fyrir. Því er mikilvægt að taka mið af því sem er að gerast í þessum samningum, gefa sér tíma en vinna hratt að því að þróa íslenskan landbúnað þannig að hann geti mætt einhverjum breytingum í alþjóðasamningaforminu. Það tel ég að við séum að gera í landbrn. Við eigum mikið og gott samstarf við bændur um það og eðlilega mikið samstarf við utanrrn. um þá framtíðarþróun.