Stefnumótun í mjólkurframleiðslu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:13:21 (6897)

2004-04-27 17:13:21# 130. lþ. 104.12 fundur 905. mál: #A stefnumótun í mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:13]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessi síðustu orð og undirtektir hennar við að mikilvægt sé að ráða fram úr réttaróvissunni og að mjólkuriðnaðurinn geti starfað við nokkurt öryggi og gott skipulag. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mjólkuriðnaðurinn og mjólkurvörurnar okkar eru mjög góðar og finn ég það hvert sem ég fer um landið að glæsileg þróun hefur verið á síðustu árum og áratugum hjá afurðastöðvum bændanna sem hefur vakið athygli bæði hér heima og ekki síður erlendis.

Ég finn að mikill stuðningur er bæði við skipulag mjólkuriðnaðarins og kannski líka við þá hugsun mína að við þessar aðstæður þurfum við líka að hugsa um það að sá smái í smásöluverslun geti lifað. Þarna er kannski eitthvert jafnréttisskipulag sem tryggir meiri samkeppni í smásöluverslun þannig að menn þurfi ekki alls staðar inn í stórar keðjur til að sækja nauðþurftir dagsins.

Svo vil ég ítreka að ég er hér með yfirlit frá Hagstofunni um hvernig á tíu ára tímabili mjólkurvörur hafa hækkað minna en margt annað. Hérna er nýmjólkin með 21% meðan rúgbrauðið er með 113% og stórlúðan 106% og ýsan 87%. Rjóminn hefur lækkað um 7% á þessu tímabili og smjörið um 15%. Þetta hefur allt gerst undir opinberri verðlagningu þar sem aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ, BSRB, úr atvinnulífinu hafa komið að þessari mikilvægu verðlagningu með ríkinu og bændunum.