Flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:52:24 (6911)

2004-04-27 17:52:24# 130. lþ. 104.15 fundur 938. mál: #A flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir mjög þarfa og góða fyrirspurn.

Ég vil nota tækifærið og benda á svar sem ég fékk einmitt frá hæstv. samgrh. í dag við fyrirspurn minni um umferðarslys. Í því svari kemur einmitt fram að Hvalfjarðargöngin eru enn sem komið er einn öruggasti vegur landsins. Þar er slysatíðni mjög lág. En það kemur líka fram að umferð um Hvalfjarðargöng hefur aukist gífurlega á undanförnum árum. Nú fara þar um 3 þúsund eða tæpir 4 þúsund bílar á hverjum einasta degi að meðaltali. Það er engin smáumferð.

Ég er einn af þeim sem fara um þessi göng nánast á hverjum einasta degi allt árið um kring. Þessir stóru þungu flutningabílar sem eru að silast upp úr göngunum eru mikið áhyggjuefni. Menn eru að taka sjensa við að fara fram úr þeim og annað þess háttar. Þetta býður hættunni heim. Ég styð það heils hugar og ég tel að menn ættu að íhuga það alvarlega að þessi umferð verði hreinlega algerlega bönnuð í Hvalfjarðargöngunum. Mönnum er engin vorkunn að því að fara fyrir fjörð. Þar er ágætur vegur, lítil umferð og það yrði langöruggasti flutningamátinn því ef þessir bílar lenda í slysi, ef eldur verður, þá er stórslysið orðið að staðreynd.