Símaþjónusta barnadeildar á Landspítalanum

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:02:08 (6917)

2004-04-27 18:02:08# 130. lþ. 104.16 fundur 707. mál: #A símaþjónusta barnadeildar á Landspítalanum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Í þeim sparnaðaraðgerðum sem standa yfir á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi var öllum deildum gert að leggja fram sparnaðaráætlanir sem hafa leitt til þess að fólki hefur verið sagt upp á flestum deildum og svo á við um barnadeildina. Þar hefur fækkað um 14 stöðugildi því barnadeildinni var gert að spara um 8% af rekstri sínum. Hluti af þjónustu barnadeildarinnar var að veita ákveðna símaþjónustu og bráðamóttakan sinnti þeirri þjónustu. Þjónustan var ekki fyrir fram skipulögð sem sérstök þjónustueining heldur kom hún til af því m.a. að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hafði ekki sinnt þörfum íbúanna, það var mannekla, erfitt að komast að og eins gat fólk ekki hringt á Slysavarðstofuna með erindi sínu eða þörfin fyrir hendi að foreldrar með börn gætu fengið bráð svör. Því var leiðin sú að hringja á barnadeildina og fá þar upplýsingar og fara annaðhvort í móttökuna eða spyrja, sem oftar var, hvert það ætti að leita.

Nú getur barnadeildin ekki sinnt þessu lengur þar sem hún hefur ekki mannafla til þess og öllum þeim sem hringja, sem voru og eru enn nokkrir tugir á dag, er vísað annað. Starfsmenn barnadeildar vísa fólki á Læknavaktina eða viðkomandi heilsugæslustöð eftir efni erindisins. Þar sem Læknavaktin gerði samning í desember við ráðuneytið um ákveðna þjónustu fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.:

Hvert hyggst ráðherra vísa símaþjónustu sem veitt hefur verið hjá barnadeild Landspítala -- háskólasjúkrahúss en hefur nú verið lögð af?

Ég hef kynnt mér málið og komist að því að þjónustunni hefur ekki verið fundinn ákveðinn farvegur.