Framtíðaruppbygging Landspítalans

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:49:24 (6939)

2004-04-27 18:49:24# 130. lþ. 104.20 fundur 939. mál: #A framtíðaruppbygging Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn:

,,Hvað líður undirbúningi framtíðaruppbyggingar Landspítala -- háskólasjúkrahúss við Hringbraut? Hefur verið tekin afstaða til ólíkra möguleika á tilhögun framkvæmda og fjármögnunar?``

Það vill svo til að fyrr í dag var merkum áfanga náð við undirbúning framtíðaruppbyggingar Landspítala -- háskólasjúkrahúss er ég og borgarstjórinn í Reykjavík undirrituðum samkomulag um skipulag lóðanna við Hringbraut. Í samkomulaginu er m.a. fjallað um afmörkun lóða, uppbyggingu bílastæða með aðkomu borgarinnar, umferðaraðgengi og almenningssamgöngur, og um lóðir Landspítala -- háskólasjúkrahúss í Arnarholti og Fossvogi. Undirritunin markar tímamót. Á grundvelli hennar er nú kleift að taka næstu skref í þessu stóra og mikilvæga máli.

Samkomulagið var undirbúið af nefnd sem ég skipaði til að ljúka frumathugun á greinargerð vegna áforma um byggingu spítalans við Hringbraut, vinna að nauðsynlegum samningum um lóðir og nýtingu þeirra og vinna deiliskipulagsvinnu með Reykjavíkurborg, gera áætlun um forgangsröðun framkvæmdaverkefna og bygginga, vinna tíma- og fjárhagsáætlun fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir sem taki til heildarsvæðisins, og skoða þær fjármögnunarleiðir sem til greina koma við uppbyggingu svæðisins, m.a. samstarf við einkaaðila.

Nefndin hefur í dag skilað mér annarri áfangaskýrslu sinni og hefur henni verið dreift til þingmanna jafnframt því sem skýrslan er kynnt opinberlega. Þetta er gert í því skyni að kynna stöðu mála nú en nefndinni hefur sóst verk sitt vel og mun skila næsta áfanga væntanlega með haustinu.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu verkefna nefndarinnar og lagðar fram tillögur til ráðherra um hvernig standa má að næstu skrefum. Í erindisbréfi nefndarinnar er henni falið að skoða sérstaklega með hvaða hætti megi fjármagna þessa framkvæmd. Ég hef ekki tekið afstöðu til fjármögnunaraðferða enn en ég óskaði eftir því að nefndin skoðaði m.a. aðkomu einkaaðila. Ég tel rétt að skoða þau mál enn frekar, m.a. í ljósi athugana nefndarinnar. Nefndin fjallaði ítarlega um það efni og fékk m.a. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að vinna að samantekt um efnið. Ein af tillögum nefndarinnar fjallar um þetta og er hún eftirfarandi:

,,Lagt er til að við undirbúning spítalans verði hugað sérstaklega að skipulagðri þátttöku einkaaðila við hönnun bygginga og fjármögnun. Til að undirbúa þátttöku einkaaðila er nauðsynlegt að kynna verkefnið opinberlega og jafnframt að skilgreina hlutverk þeirra og hins opinbera skilmerkilega. Jafnframt þarf að huga áfram að fjölþættri fjármögnun eftir efnahagslegum aðstæðum í samfélaginu hverju sinni.``

Uppbygging Landspítala -- háskólasjúkrahúss er mér mikið kappsmál og ég tel afar mikilvægt að menn gleymi ekki að horfa fram á veginn þó að verkefni dagsins í rekstri spítalans séu krefjandi. Ég legg því ríka áherslu á að unnið verði áfram að málinu af krafti en vil jafnframt undirstrika að það er farsælast að leggja mikla og góða vinnu í undirbúning þessa stóra verkefnis.

Virðulegi forseti. Undirritað hefur verið samkomulag við Reykjavíkurborg og áfangaskýrslu nefndar um uppbyggingu lóða Landspítala -- háskólasjúkrahúss við Hringbraut hefur verið dreift til þingmanna en þar er fjallað um efni fyrirspurnar þingmannsins. Vinna við uppbyggingu Landspítala -- háskólasjúkrahúss við Hringbraut mun halda áfram af fullum krafti.