Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:42:13 (7966)

2004-05-12 10:42:13# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sá dónaskapur er með eindæmum sem stjórnarliðar sýna gestum í efh.- og viðskn. Fulltrúi Samkeppnisstofnunar er í miðri setningu þegar hann er bókstaflega rekinn á dyr og við fáum ekki að ræða út við hann um mikilsverð mál. Við báðum um frest á þessum fundi í hálftíma til þess að geta lokið umfjöllun en við því var ekki orðið.

Meiri hlutinn vísar oft til þess að hann hafi meiri hluta og að eftir atvikum eigi minni hlutinn að virða það. Nú er meiri hluti í efh.- og viðskn. fyrir því að þessari umfjöllun verði haldið áfram, að við fáum að ljúka samtölunum við Samkeppnisstofnun og að við fáum á fund okkar líka fulltrúa Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Mikilvægt atriði kom fram í umsögn hjá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, og reyndar hjá Norðurljósum einnig, um að verið væri að þrengja svo mikið að rekstrarumhverfi eins fyrirtækis að líklega yrði stórt lán hjá því upp á 6 milljarða kr. gjaldfellt sem hugsanlega gæti riðið þessu fyrirtæki að fullu og gert það gjaldþrota. Svo margar hindranir eru settar á eðlilegt rekstrarumhverfi þessa fyrirtækis að það gæti haft þessar afleiðingar, sögðu fulltrúarnir. Og við þurfum auðvitað að fá á fund okkar fulltrúa Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og helst auðvitað fulltrúa Landsbankans. Ég óska eftir því, herra forseti, og tel að það muni greiða fyrir þingstörfum að meiri hlutinn fái að ræða málið áfram og ljúka umfjöllun um það.

Ég vísa til þess að í gær miðaði okkur ekki svo vel í dagskrá þessa fundar vegna þess að ekki var orðið við eðlilegum kröfum okkar um að ljúka störfum í nefnd til þess að við gætum með eðlilegum hætti fjallað um þetta mál í þinginu. Ég beini þeim eindregnu óskum til forseta að hlé verði gert á þessum fundi og að við fáum með eðlilegum hætti að ljúka umfjöllun okkar um málið í dag. Ég gæti lofað forseta því að um kl. 2 í dag yrðum við búin að ljúka umfjöllun okkar um þetta mál og ég óska eftir að við því verði orðið.