Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 13:06:09 (8001)

2004-05-12 13:06:09# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[13:06]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir upplýsandi og ítarlega ræðu en hefði viljað að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson gerði þó nánar grein fyrir einu varðandi þetta frv. sem við erum að ræða hér.

Markmið laganna er að tryggja lýðræðislega umræðu. Það hefur m.a. komið fram hjá formanni allshn., hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að sérstök vá sé fyrir dyrum varðandi lýðræðislega umræðu. Einnig hefur verið nefnt að verið sé að tryggja jafnræði á auglýsingamarkaði. Þá langaði mig að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi að meðalhófsreglunnar hefði verið gætt. Til upplýsingar má nefna að meðalhófsreglan (Gripið fram í.) gengur út á það að ná eigi fram þessum tveimur markmiðum með eins vægum úrræðum og hægt er. Við höfum nokkra lögfræðinga í nefndinni, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, Bjarna Benediktsson og Birgi Ármannsson sem situr nú í forsetastóli. Það væri mjög upplýsandi (Gripið fram í.) að fá að heyra hjá hv. þingmanni hvort hann teldi að þessarar reglu hefði verið gætt. Það er mjög athyglisvert að við höfum sérstakan sérfræðing í nefndinni sem skrifaði ritgerð um téða reglu, eftir því sem ég best veit. Ef ég fer ekki með rétt mál vona ég að hæstv. forseti leiðrétti mig. Hún liggur frammi í Þjóðarbókhlöðunni, þessi ágæta ritgerð, og ætti e.t.v. að vera hér gagn í umræðunni til þess að við tryggjum að meðalhófsreglunnar sé gætt hér.