Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:33:48 (8062)

2004-05-12 23:33:48# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:33]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Fyrst aðeins varðandi frammíköll hér um samruna banka. Það sem hæstv. viðskrh. gerði var að hún beindi því máli í eðlilegan farveg. Hún bað Samkeppnisstofnun um að leggja mat á það hvað slíkur samruni þýddi. Það kom svar frá Samkeppnisstofnun og við því var brugðist. (Gripið fram í.) Það er eðlilegur farvegur að beina málum inn til Samkeppnisstofnunar eins og m.a. þetta frv. gerir ráð fyrir. Þegar ráðandi aðili hyggst fjárfesta í ljósvakamiðli er Samkeppnisstofnun ætlað að leggja mat á það. Það var nákvæmlega það sem hæstv. viðskrh. gerði þegar hugmyndir komu um samruna þessara tveggja banka. Svar Samkeppnisstofnunar var mjög skýrt og þess vegna var ekki leitað eftir þessum samruna. Það er eðlilegt ferli. Það er sama ferlið og er gert ráð fyrir í þessu frv.

Það er aðili með yfir 50% eignaraðild á hinum almenna fjölmiðlamarkaði. Telja menn það vera eðlilegt hlutfall?