Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:42:00 (8070)

2004-05-12 23:42:00# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:42]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það kom fram í umræðunni rétt áðan að það þætti orðið fréttaefni hve miklar og langar ræður væru hér fluttar varðandi þetta mál. Ég segi að þetta mál er það mikilvægt okkur öllum að einhvers staðar verður umræðan að fara fram. Ekki fór hún fram við undirbúning frv. eða í nefndum þingsins. Þótt kallað hafi verið á fjölda manna til að fara yfir málið segir fjöldinn ekki nema hálfa söguna. Það þarf að hlusta og það þarf að fara eftir því sem fram kemur hjá þeim gestum sem koma til nefndarinnar. Það er að mínu mati brot á vinnureglum þingsins að kalla eftir nefndarálitum annarra nefnda og skila svo af sér áliti eins og hv. allshn. gerði án þess að vera búin að fá nefndarálit bæði frá efh.- og viðskn. og menntmn. Til hvers er þá verið að setja upp þetta ferli sem manni finnst að sé leikrit en ekki til að vinna á hinu háa Alþingi með lýðræðislegum hætti?

Hv. þm. Hjálmar Árnason taldi í ræðu sinni og andsvörum að vel hefði verið staðið að málum hvað varðar undirbúning frv. þar sem sú skýrsla sem sagt er að frv. byggi á hafi verið vönduð og góð. Ég efa ekki að hún hafi verið það og að við gerð skýrslunnar hafi verið talað við fjölda einstaklinga til að afla gagna. Ég veit samt ekki til þess, hæstv. forseti, að í þeirri vinnu hafi verið leitað eftir áliti eða samvinnu þeirra einstaklinga til að vinna úr skýrslugerðinni, að koma með tillögur til frumvarpsgerðar. Það er allt annað að leita til fjölda manna til þess að fá upplýsingar inn í svo viðamikla skýrslu eða til þess að halda svo ferlinu áfram og fá samvinnu með framhaldið.

[23:45]

Það er alveg ljóst að þegar skýrslan kom fram var það frv. sem við höfum hér undir höndum unnið með hraði. Hörðustu þættir skýrslunnar eru valdir til lausnar, þeir sem setja fjölmiðlamarkaðnum hvað mestar skorður. Þess vegna er ekki hægt að segja að farið sé að tillögum skýrslunnar, heldur eru þar teknir úr valdir kaflar. Í skýrslunni er vissulega að finna gagnlegar ábendingar um hvernig bregðast megi við þeirri stöðu sem við erum í í dag. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum er staðreynd og ég tel rétt að við bregðumst við en ég hefði talið gott að fá þessa skýrslu, fara yfir hana og leyfa henni að gerjast svolítið, skoða málið og hafa markvissa vinnu ekki styttra en fram á haustið og sjá þá hvernig menn hefðu náð að lenda þessu máli eftir betri yfirferð. Við verðum að gefa okkur tíma til að skoða mismunandi lausnir, en ekki bara það, ég lít nú í eigin barm og til míns flokks og við viðurkennum að það ástand sem hér hefur skapast, bæði á fjölmiðlamarkaðnum og á öðrum sviðum þjóðlífsins, er ekki hollt og gott fyrir íslenskt þjóðlíf. Það þarf að bregðast við en það er hægt að gera á svo margan hátt.

Það hefur verið vitnað til þess að í nágrannalandi okkar og vinalandi, Noregi, séu uppi nákvæmlega sömu áhyggjur. Norðmenn átta sig hins vegar á því að það að fjalla um lýðræðið og grípa svo inn í ráðandi ástand sem á einhvern hátt skerðir hugsanlega það tjáningarfrelsi sem til staðar er sé mjög viðkvæmt. Þeir voru fjögur ár að vinna að sinni lagagerð. Mér finnst það segja okkur hvað málið er viðkvæmt.

(Forseti (HBl): Afsakið. Það er almenn kurteisi við ræðumann að vera ekki með fundarhöld fyrir framan hann.)

Herra forseti. Það sem við stöndum frammi fyrir núna er ekkert annað en beinar afleiðingar aðgerða hæstv. ríkisstjórnar og þeirra sem hafa setið undanfarið kjörtímabil. Boðorðið hefur verið að allt skuli gefið frjálst. Markaðurinn á að ráða. Samkeppnin á að ráða. Hin heilbrigðu markaðsöfl eiga að veita aðhaldið og hið opinbera á ekki að vera með puttana í því. Þetta sjáum við á öllum sviðum. Það sem hefur verið í ríkiseigu, þá nefni ég bara bankana sem síðasta dæmið, er selt. Opinberar eigur eru seldar út á hinn frjálsa markað. Þetta m.a. hefur hjálpað fjármagnsöflunum í þessu landi til að verða sterkari og öflugri og þar með hefur farið af stað þessi keðjumyndun eignarhalds á mismunandi sviðum, og m.a. á fjölmiðlamarkaðnum.

Það veit ég að þeir sem muna hvernig fjölmiðlar hafa staðið í ströngu og átt í eilífum rekstrarerfiðleikum í gegnum árin hafa samúð með þeim. Það er fjárhagslega þungt að reka fjölmiðla, hvort heldur það eru prentfjölmiðlar eða ljósvakafjölmiðlar. Menn voru fegnir því að fá inn fjársterka aðila. Fyrst þegar jafnfjársterkur aðili og Baugur kom inn í rekstur Norðurljósa --- það er ekki hægt annað en að nefna það fyrirtæki --- varð rekstur þeirra tryggður og hefur náð að verða eins sterkur og hann er í dag.

Það er alltaf betra að setja leikreglurnar áður en þarf að grípa inn í. Sú ákvörðun var tekin að gefa þetta frjálst með ákveðnum takmörkunum sem vörðuðu útvarpsleyfin en eins og við þekkjum öll hefur þeim leyfum verið nokkuð frjálslega útdeilt og lítið verið hugsað til eignarhaldsins og enn þá síður til innihalds og krafna um það sem á að útvarpa.

Við höfum talað um fjölmiðlana sem þriðja valdið. Það er réttnefni að mínu mati því fjölmiðlar hafa í daglegu lífi mjög sterk áhrif á hvern þann einstakling sem les, hlustar og horfir. Það er ekki alltaf sem við óskum eftir því áreiti sem er frá útvarpi og sjónvarpi. Við kveikjum ekki bara og slökkvum á tækjunum þegar við viljum, heldur erum við með þetta í eyrunum liggur við hvar sem við förum. Útvarpsefni og það efni sem birtist í fjölmiðlunum, hvort sem er í ljósvökunum eða dagblöðunum, er skoðanamyndandi. Það er vandfarið með það vald sem fjölmiðlarnir hafa. Ég tel að fjölmiðlar eigi að hvetja til virkrar umræðu eða þá að við eigum að gera þá kröfu til þeirra að þeir hafi ákveðna upplýsinga- og fréttaskyldu.

Ég tel að til þess að hægt sé að gera þessar kröfur þurfi fjölmiðlarnir að hafa styrkar stoðir. Við þurfum að finna ásættanlega leið til þess að við kippum ekki rekstrargrundvelli undan þeim sem nú eru starfandi svo að áfram verði hér þannig umhverfi að fleiri en færri hafi áhuga á því að vera í slíkum rekstri. Fjölmiðlaflóran verður áfram að vera breið og koma bæði að mismunandi efni og sjónarmiðum.

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði tökum sannarlega undir þá tillögu sem kemur fram sem fyrsta tillaga skýrsluhöfunda, þ.e. að styrkja Ríkisútvarpið. Það er mjög mikilvægt að tryggja að það verði eflt til muna frá því sem nú er og það verður að gefa Ríkisútvarpinu og sjónvarpinu möguleika á að auka framboð af íslensku efni. Þetta er númer eitt, tvö og þrjú.

Í öðru lagi er mikilvægt að tryggja sjálfstæði fjölmiðlanna og ritstjórna, allra fjölmiðla, og tryggja það þannig að þeir séu óháðir bæði pólitískum og efnahagslegum þrýstingi. Þetta á við þá fjölmiðla sem eru reknir af hinu opinbera, en öðru máli mundi gegna um fjölmiðla sem væru reknir af hinum pólitísku flokkum eða öflum. Því miður er það þannig í dag að fjárhagur hinna pólitísku flokka leyfir ekki að þeir stundi blaðaútgáfu eins og áður var. Tel ég að eitt af því sem við hefðum átt að skoða í þessu samhengi væri að styrkja flokkana betur með opinberu fé til þess að efla lýðræðislega umræðu. Flokkarnir þyrftu meira framlag svo að þeir gætu verið með fjölmiðlaútgáfu af einhverju tagi. Það er nauðsynlegt.

Til þess að efla lýðræðislega umræðu tel ég mjög nauðsynlegt að koma að öllum pólitískum sjónarmiðum og jafnnauðsynlegt er að eignarhald á fjölmiðlunum sé ljóst. Það vitum við að á meðan Morgunblaðið hafði hinn pólitíska bláa stimpil og Þjóðviljinn þann eldrauða vissu allir fyrir hvað þessi blöð stóðu og lásu fréttir og annað sem í þeim birtist með það fyrir augum að þarna væru þessir flokkar að koma sínum pólitísku skilaboðum á framfæri. Þá meðtekur maður það, veit það og er gagnrýninn með tilliti til þess. Því er nauðsynlegt að eignarhaldið sé ljóst.

Við verðum fyrst og fremst að stuðla að fjölbreyttri fjölmiðlaflóru. Eins og ég sagði áðan verður lagaumhverfið að tryggja sterkan rekstrargrunn.

Ég tel líka, herra forseti, ekki nóg að horfa bara á það að ekki sé hægt að rugga siglandi bátum eða stokka upp það munstur sem við höfum á eignarhaldi fjölmiðlanna í dag því að við getum líka staðið frammi fyrir því að ráðandi fyrirtæki á fjölmiðlamarkaðnum sé hugsanlega með marga fjölmiðla, bæði ljósvaka og blöð, en framboðið af efni sé allt af svipuðum toga.

Herra forseti. Ég sé engan mun á því hvort við hlustum á dægurtónlist á einni rás eða hvort svipuð dægurtónlist sé á 10 rásum, svo ég taki dæmi. Það er ekki nóg að segja að við höfum mjög fjölbreytta flóru í dag. Fjölbreytt flóra getur verið margar rásir, en mjög svipað efni. Það sem við þurfum auðvitað að tryggja líka er fjölbreytnin í efninu. Við þurfum að horfa til þess að íslenski markaðurinn er lítill og því þurfum við að sníða þessar reglur sem við ætlum að hafa utan um fjölmiðlamarkaðinn með tilliti til þess. Hér gilda allt aðrar reglur en hjá hinum stærri þjóðum. Það er dýrt eins og ég sagði áðan að reka ljósvakamiðil. Við þurfum því líka að taka tillit til stærðar markaðarins.

Að mínu mati eigum við að viðurkenna, eftir þá úttekt sem hér var gerð, að þörf sé á breyttum leikreglum vegna þeirrar þróunar á eignarhaldi á fjölmiðlum sem samhliða samþjöppun í íslensku viðskiptalífi er ekki holl til lengdar litið.

[24:00]

Ég tel sem sagt mögulegt að fara margar leiðir. Markmiðið með því að takmarka eignarhald á fjölmiðlum eins og hér er lagt til á að vera til þess að treysta lýðræði og fjölbreytni. Tilgangurinn verður að vera ljós í lögunum og okkur ber að setja ekki strangari reglur en nauðsynlegt er.

Herra forseti. Eins og frv. kom fram, með algjöru banni, líka með fyrirliggjandi brtt., er það allt of strangt til þess að ná tilgangi sínum fyrir utan að fela svo í sér þau alvarlegu ákvæði sem hér hafa komið fram um brot á hinum ýmsu sáttmálum.

Svo fannst mér, herra forseti, mjög áhugavert að hlusta á hv. þm. Jóhann Ársælsson þegar hann velti því upp hvort hugsanlegt væri að ákvæði frv. um eignarhald markaðsráðandi fyrirtækja á fjölmiðli ætti ekki við einstakling. Mér fannst svar hv. þm. Bjarna Benediktssonar hljóma eins og ekki hefði verið hugsað út í það. Það skyldi þó aldrei vera að þetta væri eitt af mörgum atriðum sem þyrfti að skoða betur, hvort samkvæmt þessu frv. væri möguleiki á því að fjársterkur einstaklingur gæti hreinlega keypt upp fjölmiðlana eða orðið ráðandi hér á fjölmiðlamarkaðnum, þá sérstaklega ljósvökunum. Þegar menn geta tekið næstum því upp úr öðrum vasanum fjármuni eða þurfa ekki að hafa pening til að kaupa heilu bankana eða stórfyrirtæki sé ég í raun og veru engan mun á því eða að fjárfesta í fjölmiðli ef einstaklingur hefur áhuga á því. Mér sýnist fjármagnið vera til staðar, a.m.k. eins og þó nokkuð stór hópur einstaklinga virðist geta fjárfest í dag. Ég held að þetta sé frekar spurning um áhuga en fjárhagslega getu. Ég tel, herra forseti, að þetta sé eitt af því sem við þurfum að skoða líka.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum ekki talsmenn þess að ekkert megi gera hér. Við höfum talað fyrir því eins og kom fram í umræðunni fyrr í vetur og eins samkvæmt till. til þál. um könnun á starfsumgjörð fjölmiðla sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði fyrir. Fleiri þingmenn voru meðflm., eins og Drífa Hjartardóttir, Guðjón Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Steingrímur J. Sigfússon. Þar var lagt til að fara í vinnu svipaða og skýrsluhöfundum finnst en þó með allt öðrum hætti. Í þeirri þáltill. var lagt til að nefndin yrði skipuð fulltrúum allra þingflokka til að koma öllum sjónarmiðum að, pólitískum áherslum, og hún færi í þá vinnu ,,að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi``. Síðan átti nefndin að kanna eftirfarandi atriði sérstaklega eins og segir í þingskjali 366, með leyfi forseta:

,,a. hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila,

b. hvort setja beri sérstök ákvæði í lög sem tryggi fullt gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum.`` --- Um þetta ákvæði er, herra forseti, ekkert í frv. þannig að það er nokkuð langt í land með að við séum búin að klára vinnuna.

Síðan kemur hér: ,,c. hvort ástæða sé til að takmarka sérstaklega möguleika aðila til eignarhalds á fjölmiðlum sem eru markaðsráðandi eða mjög umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta, t.d. á sviði fjármálaþjónustu``.

Það er svo sannarlega gert, bæði í frv. og eins í brtt. Það hefur breyst frá því að vera algjört bann yfir í að í brtt. er talað um að fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta megi eiga 5% hlut í ljósvakafjölmiðli. 5%, herra forseti, tel ég að sé allt of lág prósenta til þess að hún hafi eitthvað að segja varðandi það að hafa tryggan rekstur.

Þegar við förum þá leið að nefna prósentu tel ég að hún þurfi að vera hærri til þess að vekja áhuga fjárfesta á að reka fjölmiðil án þess þó að hann sé þar í meirihlutaeigu. Það er nokkuð breitt bil á milli 5% og t.d. 20% --- ég ætla svo sem ekki að nefna neina tölu en það verður að fara mun hærra en 5% svo að þetta sé áhugaverður fjárfestingarkostur.

Herra forseti. Í tillögunni var lagt til að löggjöf og starfsskilyrði fjölmiðla í nálægum löndum yrðu skoðuð með hliðsjón af markmiði nefndarinnar og þá með tilliti til þess að setja samsvarandi löggjöf hér. Nú er löggjöfin í nálægum löndum misjöfn en alls staðar einhvers konar takmarkanir með mismunandi hætti. Ég tel að ekki hafi verið lagst í þá vinnu að skoða mögulega löggjöf á víðum grunni og skoða hvað af lagaumhverfinu hefði passað hjá okkur. Það hefði þurft að leggja miklu meiri vinnu í þá skoðun.

Það sem greinir þáltill. sem ég nefndi frá þeirri vinnu sem fór í gang eftir að skýrslan var lögð hér fram er alveg ljóst. Í þáltill. var lagt til að leitað yrði samráðs við Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla og samtök þeirra, menntmrn. og aðra sem málið varðar. Það er þetta samráð sem hefur skort og þar greinir á milli tillögu okkar og svo vinnunnar sem var lögð í frv.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að hér hefðu verið viðhöfð vönduð vinnubrögð. Ég tel að svo sé ekki og þess vegna séu viðbrögðin svona hörð. Fyrir utan efnisinnihald frv. eru viðbrögðin í þinginu, og úti í þjóðfélaginu ekki síst, vegna þeirra vinnubragða og þeirra tilfinninga sem fólk hefur, ekki síst gagnvart þingmönnum, að hreinlega sé valtað yfir okkur trekk í trekk, í þessu máli eins og mörgum öðrum. Hér er þingmeirihluti sem ætlar að ráða þessu og við getum svo sem dansað með og þeir gestir sem við köllum til nefndanna en það þarf ekki að hlusta á minni hlutann frekar en menn vilja, eða taka einhverjum rökum.

Ég tel alvarlegast núna miðað við hvar við stöndum í þessu ferli að menn hafa ekki gefið sér tíma til að skoða vel hvaða afleiðingar það mundi hafa út á fjölmiðlamarkaðinn ef þetta frv. með fram komnum brtt. yrði að lögum. Menn vita ekki hvaða áhrif þetta hefði. Þótt búið sé að fresta gildistökunni um tvö ár hefur umræðan þegar haft efnahagsleg áhrif á fyrirtækið Norðurljós. Það eru fleiri sem þetta snertir. Þetta snertir lífeyrissjóðina, atvinnu fólksins sem vinnur við þessa fjölmiðla o.s.frv. Afleiðingar þess að festa hugmyndirnar í lög eru ófyrirsjáanlegar. Það hefur ekki verið kannað. Þar tel ég að menn ættu að hinkra við. Það er betra að gera það fyrir fram en að fá skellinn á sig síðar.

Herra forseti. Það hefur líka verið bent á og færð rök fyrir því að þrátt fyrir brtt. standist frv. að öllum líkindum ekki ESB-skilgreiningar um svokallaðan ,,puralism,`` þ.e. að halda ákveðnum aðila frá markaðnum. Þaðan kemur þetta ákvæði um að ef hægt er að ná sama árangri með minna inngripi skuli það gert, þ.e. að setja ekki strangari reglur en nauðsynlegt er. Samkvæmt öðrum tilskipunum ESB, Evrópusambandsins, munu lögin jafnframt brjóta gegn ákvæðinu um frjálst flæði fjármagns og það er alveg ljóst að samkeppni mun minnka hér með frv. ef frv. verður að lögum.

Herra forseti. Mig langar aðeins að fara nokkrum orðum um útvarpsréttarnefnd sem kemur fram í brtt. Þar er tillaga um að breyta henni úr fimm manna nefnd sem Alþingi skipar í dag yfir í þriggja manna nefnd sem menntmrh. skipar. Komið hefur fram gagnrýni á hvernig útvarpsréttarnefnd hefur starfað. Ég tel að hún verði að vinna eftir mjög skýrum reglum og hafa mjög skýra stjórnsýsluskipan. Hér er hins vegar enn einu sinni verið að færa ábyrgð frá Alþingi yfir á framkvæmdarvaldið og síðan á með þessari tillögu að færa ábyrgðina frá framkvæmdarvaldinu yfir á þessa þriggja manna útvarpsréttarnefnd. Hún á að hafa það vald að skoða og ákvarða og meta. Það verður ekki hægt að vísa úrskurði hennar til æðra stjórnvalds og það tel ég vera mjög umhugsunarvert. Í raun ætti að skoða miklu betur þá þróun að flytja stöðugt meira af ábyrgð þingsins yfir á framkvæmdarvaldið og í þessu tilfelli hvað verið er að fá útvarpsréttarnefnd mikið vald, óskorað vald, mjög víðfeðmt verkefni, en um leið er mjög óskilgreint hvernig hún eigi að starfa. Þetta verður mjög valdamikil nefnd sem hefur úrskurð í sínum höndum.

[24:15]

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína mjög langa. Ég gæti talað í alla nótt, eins og ég veit að allir þingmenn gætu gert, og ekki þá til þess að vera í einhverju sem kallað er málþóf, heldur eru bara svo margir þættir sem við getum fyrst rætt í þessum sal. Þessi umræða hefur ekki komið fram fyrr en hérna.

Ég vil draga eitt fram til viðbótar. Mér finnst þetta frv. taka á mjög takmörkuðum þáttum, þ.e. til útvarpsleyfanna. Það eru svo margir aðrir þættir sem skipta máli eins og mjög ör þróun varðandi tækni í útsendingum. Veraldarvefurinn er kominn núna. Það er verið að senda út í gegnum gervihnött. Mér finnst að ef í svona vinnu er farið eigi að horfa á útvarpslögin í heild og taka á fleiri þáttum en gert er í þessu frv. Það tekur eingöngu tillit til núverandi stöðu og þá aðallega vegna eignarhaldsins. Það er ekki verið að horfa á fleiri þætti sem koma fram í skýrslunni, eins og t.d. það að úthlutun leyfa gæti líka verið bundin útsendingarefni, þ.e. hverju eigi að útvarpa. Það gætu verið ákveðnar kröfur um magn af íslensku efni, um fjölbreytni, textun, túlkun á táknmáli og fleira sem ætti þá að koma inn í leyfin líka.

Ég vil taka það fram, herra forseti, í lokin að það sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill í þessu sambandi er fyrst og fremst að efla Ríkisútvarpið, sérstaklega þá íslenska dagskrárgerð. Við viljum setja skorður á eignarhald á fjölmiðlum með tilliti til markaðsráðandi aðila á öðrum vettvangi og eins vegna hringamyndunar fyrirtækja en ekki með þeim hætti sem hér er gert. Hér er gengið allt of langt. Það þarf að ná miklu víðtækari samstöðu og einingu um það hvernig við viljum hafa þetta umhverfi. Það á að undirbúa slíka löggjöf í samráði við viðkomandi aðila. Það tekur tíma. Það tekur tíma að ná sáttum og að vinna sig í gegnum slíkt ferli.

Því styð ég, herra forseti, frávísunartillögu sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta allshn.