Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 18:31:23 (9259)

2004-05-27 18:31:23# 130. lþ. 129.17 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv. 99/2004, SKK
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[18:31]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa langt mál um frv. Formaður hv. allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur gert prýðilega grein fyrir efni þeirra breytinga sem lagðar eru til í því nál. sem liggur hér fyrir. Ég vil þó áður en ég kem að þeim fyrirvara sem ég gerði við nál. lýsa því að ég tel að frv. eins og það liggur fyrir núna feli í sér gríðarlega mikla réttarbót, bæði fyrir neytendur á fasteignamarkaði og ekki síður fyrir þá sem starfa á þeim markaði, þ.e. fyrst og fremst fasteignasalana. Þeir hafa náttúrlega kallað sjálfir eftir þeim reglum sem fram komu í frv. og þær eru að mínu mati til þess fallnar að bæta mjög starfsumhverfi þeirra.

Eins og fram kemur í nál. gerum ég og hv. þm. Birgir Ármannsson fyrirvara við nál. og þær breytingar sem þar koma fram. Hann lýtur fyrst og fremst að skylduaðild að Félagi fasteignasala, þ.e. skylduaðild löggiltra fasteignasala að félaginu. Við hefðum talið mögulegt að ná fram þeim markmiðum sem frv. er ætlað að ná án þess að kveða á um skylduaðild að félaginu með því einfaldlega að gera alla löggilta fasteignasala eftirlitsskylda hvort sem þeir væru í félaginu eða ekki. Fram komu hins vegar sjónarmið um að það væri nauðsynlegt á þessu stigi málsins, vegna umfangs eftirlitsins og ekki síður til þess að þeir sem störfuðu á þessum markaði gætu komið sér upp sameiginlegum siðareglum eða verklagsreglum sem fasteignasölum bæri öllum að vinna eftir, að kveða á um skylduaðildina, a.m.k. til að byrja með.

Við gerum fyrirvara við nauðsyn þess að kveða á um hana. Verði niðurstaðan hins vegar sú, þegar frv. þetta verður að lögum, að kveðið verði á um skylduaðild að Félagi fasteignasala leggjum við, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, mjög þunga áherslu á það að við endurskoðun þessara laga fyrir þann 1. janúar 2008 verði sérstaklega kannaður grundvöllur þess að aflétta þeirri skylduaðild þannig að félagafrelsi sé til staðar hvað þessa stétt manna varðar. Við fögnum þeirri brtt. og ritum af þeirri ástæðu undir nál. en með fyrirvara.