Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 21:55:29 (9275)

2004-05-27 21:55:29# 130. lþ. 129.21 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál. 28/130, DJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[21:55]

Dagný Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil segja að í þessari þáltill. felast mörg stór og afar krefjandi verkefni. Eins og hér hefur verið rætt um felst í tillögunni að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu 14 svæða á landinu til að stuðla að traustari vernd íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Jafnhliða þessum verkefnum öllum á að vinna áfram að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég held að það sé mjög mikilvægt og þetta er einmitt ástæðan fyrir því að svæðin eru 14 en ekki mun fleiri eins og við hefðum kannski viljað. Við eigum öll okkar óskasvæði sem við hefðum viljað bæta við en það sem við verðum einmitt að hafa hugfast er að þær stofnanir sem munu vinna að þessari friðlýsingu og sinna allri þessari vinnu á næstu fimm árum hafi bolmagn til þess. Það er afar mikilvægt að fara ekki af stað með of mörg svæði vegna þess að við leggjum auðvitað áherslu á að vandað verði til verksins.

Út frá þessu vildi ég einmitt taka undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um mikilvægi Gerpissvæðisins og þeirra auðlinda sem þar leynast. Það var hins vegar ljóst frá upphafi að svæðunum yrði ekki fjölgað og þá höfum við litið á þessi rök út frá vinnuálagi, því að geta gert þetta almennilega o.fl.

Því tekur nál. sérstaklega á þeim svæðum sem langt eru komin í friðlýsingarferli. Þar segir, með leyfi herra forseta:

,,Leggur nefndin áherslu á að þar sem friðlýsing er á lokastigi sé rétt að ljúka vinnu við hana þannig að niðurstaða fáist sem allra fyrst á þessum svæðum.``

Ég lít a.m.k. þannig á að friðlýsingu þessara svæða sem talin eru upp í nál. verði jafnvel lokið áður en þessi 14 svæði verða fullunnin.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég vil þakka umhverfisnefndarfólki og þá sérstaklega formanni umhvn., hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, fyrir sérstaklega ánægjulegt samstarf í þessu máli. Ég segi eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir að þetta er minn fyrsti vetur í umhvn. og það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með málinu. Ég verð að segja það til samanburðar við hinar fjórar nefndirnar sem ég sit í að ég hef sjaldan lesið jafnánægjulegar, skemmtilegar og vel orðaðar umsagnir. Það var mikill hiti hjá mörgum og gaman að sjá vilja heimamanna. Ég held að við höfum tekið á flestum, ef ekki öllum, atriðum í nál. En það verður einnig sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með framvindu þessara svæða næstu árin og ég legg nú einmitt til að hv. umhvn. geri sérstaka kröfu um það eftir dálítinn tíma að fá að fylgjast með hvernig gengur.