Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 23:35:40 (9293)

2004-05-27 23:35:40# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[23:35]

Frsm. 2. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Frú forseti. Það hillir undir að þau frumvörp sem við höfum verið með til meðhöndlunar verði að lögum nú fyrir helgi og ég vona og treysti því að við séum að stíga hér heilladrjúg spor. Þau eru ekki auðveld en þau (Gripið fram í: Verða góð.) verða vonandi bæði verkefnunum, starfsemi landbúnaðarins og því fólki sem þar kemur til með að starfa til heilla. Breytingunni fylgja miklar og góðar árnaðaróskir.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. landbrh. gaf hér um að höfuðstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands yrðu á Hvanneyri og jafnframt að þannig yrði um búið að rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, þegar að því kemur, sem jafnframt verði þá staðarhaldari Hvanneyrar, verði með búsetu á Hvanneyri. Ég tel að þessar yfirlýsingar séu afar mikilvægar í því að treysta og tryggja framtíð þessarar menntastofnunar landbúnaðarins.