2004-05-28 02:37:49# 130. lþ. 129.28 fundur 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[26:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. landbn. góð störf við þennan samning sem auðvitað kom nokkuð seint til þingsins. Málið hafði tafist ekki síst af því að ég legg mikið upp úr samstarfi við verkalýðshreyfinguna og hef kallað hana mjög að störfum landbúnaðarins eftir að ég varð landbrh. t.d. um grænmetið og þá þjóðarsátt sem var neytendum mikilvæg og þessa skýrslugerð, aðlögunarskýrsluna. Mér fannst mjög mikilvægt að fá aðila vinnumarkaðarins til að koma að stöðumati og stefnumótun í mjólkurframleiðslu, meta gamla samninginn, marka sýn til framtíðar og viðra sín viðhorf. Í meginatriðum hefur verið farið eftir þeim viðhorfum við gerð þessa samnings. Þar kemur t.d. glöggt fram að aðilar vinnumarkaðarins komast að þeirri sömu niðurstöðu og hér hefur verið, þ.e. að það hafi ríkt réttaróvissa svo ég taki það fram.

Þeir fjalla líka mjög um þátt neytenda. Vert er að átta sig á því að ágæt samstaða er í þessari nefnd. Þeir sem leiddu þessa skýrslugerð voru Guðmundur B. Helgason ráðuneytisstjóri. Hann leiddi nefndarstarfið. Í nefndinni sátu svo Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í landbrn., Þórhallur Arason í fjmrn., Ari Teitsson, formaður Bændasamtakanna, og Eggert Pálsson, varaformaður Bændasamtakanna, Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, Egill Sigurðsson í stjórn Landssambands kúabænda, Pálmi Vilhjálmsson frá Samtökum afurðastöðva, Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Elín Björg Jónsdóttir, fulltrúi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og Stefán Úlfarsson, hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, tilnefndur af ASÍ.

Þessi skýrsla var mjög mikilvægt gagn fyrir samninginn og samningurinn varð auðvitað mjög fljótt til þegar þeirri vinnu var lokið. Þessir fulltrúar eru allir sammála um að það sé þeirra skoðun að nýr mjólkursamningur á þeim grunni sem lýst er í skýrslunni verði vel til þess fallinn að tryggja hagsmuni neytenda og skattgreiðenda á sama tíma og stuðlað er að áframhaldandi uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Þeir tala um að hagræðing í mjólkuriðnaðinum hafi skilað umtalsverðum árangri sem að stærri hluta hafi farið til innleggjenda. Til að tryggja samkeppnisstöðu mjólkurvaranna er svo nauðsynlegt að neytendur njóti í meira mæli þessa ávinnings. Stuðla má að slíkri þróun með þeim aðhaldsskilyrðum sem fjallað er um í kafla 8.5 í skýrslunni, og eðlilegt er að fulltrúar samtaka launafólks komi þar að ásamt fulltrúum ríkisins og atvinnugreinarinnar, samanber núverandi skipan verðlagsnefndar. Allir eru sammála um þetta og í raun er enginn að tala um að breyta því. Eins og kom fram í máli hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur kvarta þeir dálítið yfir því að upplýsingagjöf hafi vantað og tölur til að geta fylgst með atvinnugreininni. Ég kannski sakna þess að yfirlýsing fylgdi ekki mjólkursamningnum um þetta atriði því ég get tekið undir að það er mjög mikilvægt.

Ég vil því við þessa umræðu gefa þá yfirlýsingu að ég lýsi því hér með yfir að ég mun sem landbrh. beita mér fyrir því að sérstakt átak verði gert um bætta upplýsingaöflun varðandi afkomu og stöðu mjólkurframleiðslu og vinnslu. Er slíkt átak í samræmi við tillögur fjölskipaðrar nefndar um stefnumótun í mjólkurframleiðslu sem skilaði til mín skýrslu í vetur í undirbúningi fyrir gerð nýs mjólkursamnings. Nauðsynlegt er að staða mjólkurframleiðslu og vinnslu sé ljós hverju sinni svo forsendur séu fyrir opinni umræðu um stöðu og horfur í greininni, svo og fyrir ákvörðunum sem snerta greinina.

Hæstv. forseti. Ég vil hér líka koma að atriði sem mjög hefur verið til umræðu á þessum fundi. Það snýr að verðlagningu á mjólk, því heimildarákvæði sem er í samningi milli bænda og ríkisvaldsins að til þess gæti komið að bændur gætu samið við afurðastöðvar um sitt mjólkurverð eða bændaverðið. Þetta hefur sætt gagnrýni hér. Það hefur líka sætt gagnrýni hjá verkalýðshreyfingunni ef þessi breyting yrði gerð. Mér finnst ekkert sjálfsagður hlutur að sú breyting verði gerð. Mér finnst það ekki sjálfsagður hlutur. Þetta var gagnrýnt á bændafundunum þar sem ég var. Ég er þeirrar skoðunar að langbest sé að halda í verðlagsnefndina eins og hún hefur verið. Hún hefur skilað neytendum miklu. Það hefur verið sterkt að hafa verkalýðshreyfinguna með í vinnu í kringum mjólkuriðnaðinn og landbúnaðinn. Ég vil því jafnframt, hæstv. forseti, gefa svohljóðandi yfirlýsingu:

Jafnframt lýsi ég því yfir að ef ákveðið verður að falla frá ákvörðun um lágmarksverð á mjólk til framleiðenda samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, verði það gert að fenginni umsögn verðlagsnefndar, enda hafi slík ákvörðun ekki áhrif á heimild verðlagsnefndar til heildsöluverðlagningar á mjólkurvörum. Mér finnst sjálfsagður hlutur að fara mjög vel yfir það ef til þess kemur, en ég er alls ekki sannfærður um að vilji standi til þess. Ég hygg að bændurnir hafi nú fyrst og fremst verið að huga að því, sem oft kemur fram í umræðunni, að þeir komi nær afurðastöðvum sínum í baráttunni, þekki stöðu þeirra betur og veiti þeim harðara aðhald. Það mun standa. Ég mun reyna að hafa allt það góða samstarf sem ég hef beitt mér fyrir við ASÍ og BSRB. Ég legg mjög mikið upp úr því neytenda vegna og tel það mjög mikinn styrk fyrir landbúnaðinn og framtíðina að það samstarf haldi áfram óbreytt. Ég hef beitt mér fyrir fundum með þessum aðilum til að ræða landbúnaðarmál og fara yfir stöðu sem kemur upp til þess að þessar stóru hreyfingar fólksins komi að ýmsu sem snýr að verðlagningu og stöðu landbúnaðarins. Það hefur mér fundist reynast landbúnaðinum vel. Mér hefur það verið mjög mikilvægt.

Hér er verið að gagnrýna það, hæstv. forseti, að ekki séu nægir peningar í þessum samningi. Auðvitað er þetta gríðarlega mikilvægur samningur. Í fyrsta lagi nær hann til 2012 og skapar mikið öryggi og framtíðarsýn fyrir bændur í landinu. Hann er verðtryggður. Í honum felast miklir peningar þrátt fyrir mikla hagræðingu í greininni á síðustu árum. Á 13 ára tímabili hafa búin stækkað um 74%. Kúabændunum hefur fækkað um 41% þannig að það hefur orðið mikil hagræðing í búskapnum og við stöndum vissulega með sterkari bú. Síðan tel ég mjög mikilvægt fyrir neytendur --- ég ítreka, bæði fyrir neytendur og bændur --- það frv. sem við samþykkjum á morgun um að mjólkuriðnaðurinn geti starfað eins og hann hefur gert. Ég segi eins og hann hefur gert. Þar vil ég ekki sjá á neina breytingu og hef gefið hér yfirlýsingu sem ég mun fara mjög vandlega yfir með aðilum samningsins og verðlagsnefnd og verkalýðshreyfingunni þannig að um þetta verði samstaða.

Hæstv. forseti. Ég vil svo segja að lokum að þetta er mikill samningur sem skiptir máli fyrir landsbyggðina, landbúnaðinn og þær góðu vörur sem neytendur kaupa daglega. Þetta skiptir allt mjög miklu máli. Ég þakka öllum sem að þessum málum hafa komið og unnið með landbrn. að undirbúningi þessa máls, að þeim samningi sem gerður hefur verið um málið. Ég held að það verði farsælt bæði fyrir bændur og neytendur að þessi samningur er í höfn. Framtíðin er ljósari til að mæta þeirri þróun sem hún boðar okkur.