Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 13:42:11 (287)

2003-10-08 13:42:11# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Herra forseti. Í byrjun árs 2001 skipaði þáv. félmrh. nefnd til að endurskoða lög og reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Í henni áttu sæti tveir fulltrúar sveitarfélaganna, þrír alþm. og fulltrúi félmrh. Nefndin skilaði tillögum í september árið 2002 og helstu markmið þeirra voru að gera aðferðir við útreikninga einfaldari og auka hlutfallslegt vægi almennra framlaga, að stilla framlögum sjóðsins upp á nýjan og aðgengilegri hátt þannig að betri yfirsýn skapaðist, að gera nauðsynlegar breytingar á tilteknum reglum sjóðsins vegna breyttra forsendna, m.a. vegna fækkunar og aukinnar stærðar sveitarfélaga og breytinga á tekjustofnum þeirra og verkefnum, að tryggja réttláta jöfnun að teknu tilliti til tekjumöguleika sveitarfélaga og útgjaldaþátta en um leið að gæta þess að þau njóti engu að síður ávinnings af hagkvæmni í rekstri og að styrkja enn frekar hlutverk sjóðsins í tengslum við sameiningu sveitarfélaga.

Í framhaldi af þessum tillögum nefndarinnar voru gerðar breytingar á laga- og reglugerðarákvæðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Helstu áhrif breytinganna voru að útgjaldajöfnunarframlög koma nú í stað þjónustuframlaga. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á uppbyggingu framlaganna og við útreikning þeirra er tekið tillit til fleiri þátta en áður. Sem dæmi má nefna að sérstakt tillit er tekið til sveitarfélaga með fjölda þéttbýlisstaða umfram einn en markmið þeirrar breytingar er að styrkja þau sveitarfélög sem í kjölfar sameiningar þurfa að reka þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað.

Tekjuhá sveitarfélög verða nú fyrir hlutfallslega meiri skerðingu en áður. Það má einkum rekja til þess að skerðing vegna tekna hefst nú þegar tekjur sveitarfélags eru 4% yfir meðaltekjum sveitarfélaga í sama viðmiðunarflokki. Samkvæmt eldri reglum hófst skerðing þjónustuframlaga ekki fyrr en tekjur voru 15% umfram meðaltekjur. Sú breyting sem hefur mest áhrif á framlög til einstakra sveitarfélaga er að framlag vegna aksturs grunnskólabarna úr dreifbýli er nú hluti útgjaldajöfnunarframlaga en var sérstakt framlag áður.

Allra tekjuhæstu sveitarfélögin sem áður fengu framlag vegna skólaaksturs grunnskólabarna úr dreifbýli verða því sum hver fyrir algerri skerðingu á þessu framlagi. Af þessum sökum verða sex þeirra sveitarfélaga sem hafa hæstar tekjur fyrir skerðingu akstursframlaga sem nemur samtals um 42 millj. kr. milli áranna 2002 og 2003.

Í stuttu máli má segja, herra forseti, að stór og meðalstór sveitarfélög komi hagstæðar út við útreikning útgjaldajöfnunarframlaga í ár en sveitarfélög með færri en 2.000 íbúa sem má rekja til þess að skerðing vegna stærðarhagkvæmni er ekki eins mikil og áður. Jafnframt leiða breyttar reglur í mörgum tilfellum til aukningar á framlögum til sameinaðra sveitarfélaga sem m.a. má rekja til framlags til þeirra sveitarfélaga sem nú eru með fleiri en einn þéttbýliskjarna.

Þegar rætt er um skerðingu útgjaldajöfnunarframlaga á þessu ári verður hins vegar að hafa í huga að þjónustuframlög úr jöfnunarsjóði voru óvenjuhá á síðasta ári. Safnast hafði fyrir eigið fé í sjóðnum og var tekin sú ákvörðun að auka úthlutun þjónustuframlaga á árinu 2002. Heildarúthlutun þjónustuframlaga í fyrra nam samtals 1,9 milljörðum kr. Vegna aksturs grunnskólabarna úr dreifbýli var þó greitt sérstakt framlag og nam það tæpum 500 millj. árið 2002. Í ár er áætlað að veita 1,9 milljörðum kr. til útgjaldajöfnunarframlaganna og eru framlög vegna aksturs grunnskólabarna þar meðtalin. Samkvæmt þessu eru minni fjármunir, þ.e. 1,9 milljarðar kr., til skiptanna í ár samanborið við 2,4 í fyrra. Munurinn nemur um hálfum milljarði kr.

Til samanburðar má geta þess að þjónustuframlög og framlög vegna aksturs grunnskólabarna úr dreifbýli námu svipaðri upphæð árið 2001 og varið er í ár til útgjaldajöfnunarframlaga.

Herra forseti. Mikið og gott samráð var haft við sveitarfélögin um endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs. Samband ísl. sveitarfélaga átti eins og áður sagði tvo fulltrúa í endurskoðunarnefndinni og einnig unnu sérfræðingar sambandsins náið að málinu með nefndinni og félmrn. Málið var síðan kynnt rækilega fyrir sveitarstjórnarmönnum, m.a. á fulltrúaráðsfundi sambandsins og á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna, auk þess sem samráð var haft við stjórn sambandsins og ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga áður en breytingarnar tóku gildi. Varðandi áhrif skerðingar á einstök sveitarfélög er ljóst, herra forseti, að framlög skerðast mest hjá þeim sveitarfélögum sem hafa hæstar tekjur og þar með mest svigrúm til hagræðingar í rekstri sínum. Þessi sveitarfélög eiga að geta hagað áætlanagerð sinni í samræmi við fyrirsjáanlega skerðingu framlaga, t.d. með því að draga úr fjárfestingum, hagræða í rekstri eða nýta betur tekjustofna sína. Ekki verður séð að þau sveitarfélög sem verða fyrir mestri skerðingu þurfi sérstakrar aðstoðar við þar sem tekjur þeirra á íbúa eru almennt langt yfir meðaltekjum sveitarfélaga af sambærilegri stærð.

Á hinn bóginn vil ég taka fram, herra forseti, að þetta er fyrsta árið sem framlögum jöfnunarsjóðs er úthlutað samkvæmt hinum nýju reglum og í allri umræðu er eðlilegt að hafa þann fyrirvara að ekki er komin mikil reynsla á hið nýja fyrirkomulag. Ég tel öruggt að bæði Samband ísl. sveitarfélaga og ráðgjafarnefnd jöfnunarsjóðs muni óska eftir breytingum á gildandi reglum ef það reynist mat þessara aðila að þau markmið sem stefnt var að hafi ekki náðst við þær breytingar sem gerðar voru á reglum sjóðsins. Sama máli gegnir ef þessir aðilar telja að reglurnar leiði til ósanngjarnrar niðurstöðu.