Sala Landssímans

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:51:19 (360)

2003-10-09 10:51:19# 130. lþ. 8.91 fundur 71#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:51]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður um það hverjir hafa gengið lengst í björgin. Þeir eru nú fullfærir um að skera úr því, leiðtogar stjórnarandstöðunnar sem hér hafa tekist á.

En það eru tvö efnisatriði sem var fitjað hér upp á. Í fyrsta lagi: Er rétt að flytja forræðið yfir eignarhlut ríkisins í Landssímanum úr samgrn. yfir í fjmrn.? Svarið við því er já. Það er rétt að gera það og verið er að undirbúa það mál í samgrn. og það hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma, eins og flestum er nú væntanlega kunnugt. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi er spurningin þessi: Á að fara að selja hlut ríkisins í Landssímanum? Svarið við því er líka já og það hefur legið fyrir um langa hríð. Það mál er í eðlilegum undirbúningi og ekkert meira um það að segja. Það liggur alveg fyrir hver stefna ríkisstjórnarinnar er í því máli. Það eina sem fram er komið í umræðunni, og er reyndar ekki nýtt, er að Vinstri grænir eru á móti því. Og hverjum þykja það tíðindi? (Gripið fram í.) Ekki mér. Ekki þykja mér það tíðindi. (Gripið fram í: Það eru 10% almennings.) Mér þykja það ekki tíðindi að Vinstri grænir séu á móti slíku framfaramáli, það liggur við að maður geti sagt að það sé eðli máls samkvæmt.