Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 13:53:07 (392)

2003-10-09 13:53:07# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Dagný Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi umræðunnar fagna því að hún skuli fara fram. Sú pólitíska afstaða sem birtist í fyrirspurnum hv. 6. Norðvest. gleður mig, sérstaklega að hún skuli taka undir með ráðherranum varðandi hið mikilvæga hlutverk landbúnaðarins í viðhaldi byggðar í landinu, ekki síst sauðfjárbóndans.

Við verðum að gæta okkar á að horfa ekki þröngt á landbúnaðinn. Ég vil horfa til þess að fleiri bændur en sauðfjárbændur geti haldið landinu í byggð þó ég dragi ekki mikilvægi þeirra í efa á nokkurn hátt. Treysta verður tekjugrundvöllinn í sveitum landsins og tel ég að landbrh. og Alþingi hafi einmitt unnið afrek í þeim efnum með stórauknum framlögum til skógræktarverkefna og þátttöku bænda í landgræðslu. Það eru svo sannarlega skref í rétta átt.

Ég tel hins vegar að við verðum að ýta undir aðlögunarhæfni íslensks landbúnaðar í sveitum landsins og leggja áherslu á hið fjölþætta hlutverk landbúnaðarins sem hæstv. landbrh. hefur gert. Ég tel að gildi þess fyrir framtíðarbúsetu í landinu sé afar mikið. Fáir í þessum sal deila um gildi þess að við höldum byggð á sem flestum stöðum í landinu. Liður í þessu er t.d. að auka sveigjanleika í íslenskum landbúnaði. Við verðum að skoða hvernig hægt er að gera bændum kleift að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum, líkt og nú á kjötmarkaði, án þess að það dragi úr fjölþættu framlagi þeirra til þjóðfélagsins. Ég hygg að mikill stuðningur sé við það í okkar landi. Í þessu sambandi skipta menntun, þróun og rannsóknir miklu máli.

Virðulegi forseti. Nýsköpunarverkefni eins og líftækni í landbúnaði, hörræktun, stóraukin kornræktun og aukin ferðaþjónusta í dreifbýli eru mikilvæg fyrir landbúnaðinn. Allt er þetta liður í að auka samkeppnishæfni hans og tryggja tekjugrundvöll.