Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 14:06:33 (398)

2003-10-09 14:06:33# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég vil þó segja við vin minn hv. þm. Björgvin Sigurðsson: Það hefur aldrei þótt galli þar sem hann var alinn upp, í hinum gamla Gnúpverjahreppi, að geta gert að gamni sínu, hvort sem það var nú Gestur á Hæli eða það að vera á þorrablótunum núna hvert ár. Það er leiðinlegt ef svona skemmtilegur ungur þingmaður ætlar að taka það að sér að verða leiðinlegur.

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún var málefnaleg. Ég tek sérstaklega undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Ég hef alltaf horft á innanlandsmarkaðinn og beðið bændur um að horfa á innanlandsmarkaðinn. Hann er þeirra sterkasta sókn. Það vígi verða þeir að verja. Útflutningsmarkaðurinn er von í framtíðinni sem þeir sjálfir ráða hvort þeir sækja eða ekki. Þeir geta fækkað sínu fé og þurfa kannski að gera það við þessar aðstæður. En þeirra er markaðurinn. Þeir verða að vera vakandi á markaðnum. Þeir verða að vera sölumenn. Þeir verða að berjast fyrir því að á öllum hótelum og matsölustöðum, í öllum skólum sé lambakjötið selt. Það er ekkert einfalt að vera bisnessmaður í dag en það þurfa bændur og þeirra afurðarstöðvar að hafa í huga.

Ég hef verið talsmaður þess að íslenskur landbúnaður selji sínar hágæðavörur á erlendum mörkuðum. Ég sé þó að vinum Íslands fjölgar og ég sé að verðið þar er núna, eða svo segja þeir í Washington, komið upp undir 200 kr. til bóndans en er kannski hér heima 250--300 kr. Menn hafa því verið að minnka það bil og ef gengið væri eins og í fyrra þá væri staðan önnur.

Ég vil svo hér segja um það sem fer til bændanna, 2.600 millj. á fjárlögum, að það fer að megninu til bænda, aðeins 300 millj. í sölu- og markaðsstarf af þessari upphæð. Ég vil líka segja að mér var glatt í huga og ég var stoltur árið 2000 þegar 66% bændanna samþykktu nýjan búvörusasmning sem innihélt 17,5 milljarða til sjö ára. Þeir áttu von um að staðan á markaðnum væri öðruvísi. Það hefur ekki gerst. Ég ætla ekki að segja upp samningnum við þá. Það er þeirra mat og ég bíð auðvitað niðurstöðu þeirrar nefndar sem nú er að störfum til þess að skoða þessi mál fyrir mig, hæstv. forseti, og ríkisstjórnina.