Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 14:36:16 (407)

2003-10-09 14:36:16# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst fá að koma að spurningunni sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson endaði á um sérstaka tekjuskattinn. Ég held að ég hafi lýst því ágætlega í máli mínu að ég tel að skattar séu settir í samhengi og það samhengi sem hér er uppi gerir það að verkum að sérstaki tekjuskatturinn er ekki lengur neinn hátekjuskattur. Hann er skattur sem leggst að verulegu leyti á fjölskyldufólk, barnafólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið og þarf að vinna mikið og hefur þess vegna af þeim ástæðum miklar tekjur. Því er ekki mætt í vaxtabótum heldur eru þær skertar og því er ekki mætt í barnabótum því þær hafa verið dregnar saman. Og við þær aðstæður tel ég gagnrýnivert að taka aftur upp sérstaka tekjuskattinn. Ég tel hins vegar vel koma til greina og auðvitað sjálfsagt mál að fólk greiði skatta eftir efnum og aðstæðum og við í Samfylkingunni orðuðum það m.a. þannig að tilefni kynni að vera til þess að taka allt tekjuskattskerfið til endurskoðunar. En það ræðum við nú ekki hér í stuttum andsvörum.

Ég vil hins vegar fagna yfirlýsingum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um að skoða þurfi þetta með vaxtabæturnar vel og að í raun gangi þetta þvert gegn því sem menn hafa sagt efnaminnsta fólkinu og áður en það réðist í fasteignakaup vegna þess að þó að stöðugleiki í ríkisfjármálum og efnahagsmálum skipti mestu máli þá skiptir stöðugleiki fyrir heimilin og fjölskyldurnar í landinu enn þá meira máli. Og þær forsendur sem heimilin hafa lagt til grundvallar þegar þau ráðast í stærstu fjárfestingu lífsins um stuðning úr vaxtabótakerfinu verða einfaldlega að halda gagnvart húsnæðiskaupendum. Þær verða a.m.k. að halda. Látum vera þó menn auki ekki stuðninginn við þau. Látum vera þó menn lækki ekki skattana á þau. En að minnka sérstaklega stuðninginn við þá sem skuldsettastir eru vegna íbúðakaupa er ósvinna, virðulegur forseti.