Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 17:57:40 (432)

2003-10-09 17:57:40# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar tveir aðilar deila og annar hótar að stefna hinum fyrir dómstóla, þá er ekki besta vörnin að leggjast á hnén og gefast upp. Þá taka menn til varna, tefla fram sínum sjónarmiðum. Og í þessu máli eru rík sjónarmið til varnar íslenskum sjónarmiðum og því að viðhalda innflutningsbanni. Þannig að ég verð að segja, herra forseti, að ég er algjörlega ósammála hæstv. landbrh. í því.

Í öðru lagi verð ég að segja það, vegna þess að það liggur fyrir í þingskjölum, að málið var ekki lagt fyrir Alþingi fyrr en 6. mars, fáum dögum áður en því átti að ljúka. Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Hvenær var frv. tilbúið í ráðuneytinu?