Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 14:00:10 (506)

2003-10-14 14:00:10# 130. lþ. 10.96 fundur 87#B geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga# (umræður utan dagskrár), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Virðulegi forseti. Ár eftir ár eru málefni geðsjúkra einstaklinga í uppnámi og við heyrum meira að segja af ófremdarástandi í málefnum geðsjúkra barna og unglinga. Á meðan þetta er í ólestri getum við ekki réttlætt nein önnur ríkisútgjöld. Þetta er einfaldlega hluti af grunnskyldu samfélagsins langt á undan jarðgöngum, sendiráðum, búvörusamningum og menningarhúsum.

Á hverjum gefnum tíma glíma um 50 þús. Íslendingar við geðraskanir af ýmsum toga. Í þeim hópi er að sjálfsögðu að finna börn og unglinga en um fimmta hvert barn í landinu er talið eiga við geðheilsuvandamál að stríða. Fleiri einstaklingar fremja sjálfsvíg árlega hérlendis en þeir sem deyja í umferðarslysum.

Formaður Félags foreldra og áhugafólks um geðraskanir barna og unglinga hefur nýlega staðfest að kerfið hafi einfaldlega brugðist og að í raun ríki ófremdarástand í geðheilbrigðismálum barna og unglinga hér á landi. Hann telur að úrræði fyrir börn og unglinga skorti á öllum þjónustustigum og að Ísland sé hinum Norðurlöndunum langt að baki. Hér á landi er gert ráð fyrir að 0,5% barna með geðheilsuvandamál fái viðunandi þjónustu en annars staðar á Norðurlöndunum er þetta hlutfall 2%, þ.e. fjórum sinnum hærra. Til að ná þeim viðmiðunum hér á landi þyrfti að þrefalda mannafla barna- og unglingageðdeildar Landspítalans. Hvorki tímabundnir plástrar né góð orð ráðherrans við og við nægja lengur. Við þurfum eifnaldlega að setja þessi mál í forgang og í raun þarf ekki mikið til. Það á ekki að þurfa að standa í undirskriftasöfnunum eða skipa sérstaka verkefnisstjóra með reglulegu millibili. Hlustum á þá sem þekkja þessi mál og leysum þau í eitt skipti fyrir öll.