Fæðingar- og foreldraorlof

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 18:05:57 (566)

2003-10-14 18:05:57# 130. lþ. 10.9 fundur 13. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (orlofslaun) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki ofsagt að ræða hæstv. félmrh. olli mér miklum vonbrigðum. Ráðherra hefur ekkert hugsað málið frá því að við hittum hann í félmn. í sumar. Það er gersamlega nákvæmlega sama staða og þá var. Það er óviðunandi fyrir þær tíu þúsund fjölskyldur, sem eru orðnar fleiri núna, sem bíða í fullkominni óvissu um það hvort þær fái orlofsgreiðslur eða ekki.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni. Finnst honum það þolandi og líðandi að gerð sé mismunun á vinnumarkaðnum varðandi orlofsgreiðslur eftir því hvort um er að ræða þá sem eru á almenna vinnumarkaðnum eða opinbera markaðnum? Er ráðherrann að segja það þegar hann talar um að aðilar vinnumarkaðarins, væntanlega á almenna markaðnum eigi sjálfir að útkljá þetta mál að hann sé að fría sjálfan sig við því að þurfa að taka ákvörðun í málinu og hæstv. ráðherra sé raunverulega að vísa þessu kannski inn í næstu kjarasamningagerð? Og ég spyr: Á þetta að vera einhver skiptimynt í kjarasamningum á almenna markaðnum eins og hæstv. ráðherrar hafa talað um að skattalækkanir eigi að vera skiptimynt fyrir launahækkanir hjá fólki í komandi kjarasamningum? Það er auðvitað óþolandi. Hæstv. ráðherra ætlar greinilega að hunsa það sem hann var beðinn um af félmn., þ.e. að þetta sérstaka atriði yrði tekið út úr og skoðað sérstaklega. Þess vegna, herra forseti, ítreka ég að svar hæstv. ráðherra veldur mér miklum vonbrigðum og alveg örugglega þeim tíu þúsund fjölskyldum sem hafa verið hlunnfarnar og eiga inni 500 millj. kr. hjá ríkissjóði.