Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:29:56 (1114)

2003-11-04 14:29:56# 130. lþ. 20.4 fundur 19. mál: #A friðlýsing Jökulsár á Fjöllum# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég styð þessa tillögu. Mér finnst hún góð. Mér finnst hún fyllilega tímabær og mér finnst greinargerðin með henni segja allt sem þarf um þetta stóra og þýðingarmikla mál. Ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að alþingismenn eigi að sameinast um að friðlýsa Jökulsá á Fjöllum.

Það er löngu tímabært að ákveða hverju ekki á að hrófla við í landinu okkar og við eigum að ákveða hvað við erum tilbúin að spara til framtíðar, hverju má hrófla við og hvað það er sem við erum tilbúin að skoða hvort heldur er vegna virkjunar eða einhverra annarra framkvæmda.

Ég velti því fyrir mér meðan framsögumaður var að ræða málið og sem hann kom reyndar að í lokin hvort ekki væri full ástæða til að skoða hvort Jökulsá á Fjöllum með umhverfi sínu og vatnasviði gæti orðið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði eða a.m.k. tengst þessum væntanlega þjóðgarði sem er verið að fjalla um.

Þingmaðurinn nefndi umhverfisþingið. Þar var rætt um tillögur umhvrh. um ný friðuð svæði og þar var einmitt lögð mikil áhersla á að það væri nauðsynlegt að ganga lengra í að friða vatnasvið og að það væri líka mjög mikilvægt að friða svæði, ekki bara taka einhvern einstakan afmarkaðan stað heldur skoða hvort það væri hluti af þýðingarmiklu svæði sem þyrfti með einhverjum hætti að varðveita.

Líka komu fram ýmsar skemmtilegar hugmyndir á umhverfisþinginu, meðal annars í þeim hópi sem ég veitti forstöðu. Ein var um hvort ekki væri orðið tímabært að friða eina jökulá sem rennur í norður og aðra sem rennur í suður, einmitt vegna þess sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem mælir fyrir þessari tillögu nefndi áðan. Við erum búin að ganga á stóru árnar og það er engin stór á eftir sem hægt er að grípa til til að þjónusta risastóriðjufyrirtæki. Þó að ég sé ekki að leggja það til er fyllilega ástæða til að gefa gaum hugmyndum sem þessum. Okkur hefur fundist að það sé svo sjálfsagt að vera með miklar jökulár með öllum sínum fossum, giljum og stórbrotnu umhverfi en það er ekkert sjálfsagt lengur. Við erum farin að ganga inn á landið mjög mikið og sérstaklega höfum við gengið inn á landið norðan Vatnajökuls. Okkur ber að skoða hvort nóg sé að gert í bili og hvort við eigum ekki að standa vörð um svona stórkostlegt náttúrufyrirbæri eins og Jökulsá á Fjöllum er og það svæði sem hún tilheyrir alveg ofan frá Dyngjufjöllum og svæðinu norðan Vatnajökuls.

Annað vil ég nefna. Hér bar á góma umsögn Sveinbjörns Björnssonar um árnar okkar. Hann varpaði líka eiginlega upp einkunnagjöf sem mun fylgja rammaáætluninni sem verður brátt skilað til okkar og þar fær þessi á, Jökulsá á Fjöllum, hæstu einkunn, ekki hæstu einkunn til að virkja heldur hæstu einkunn þegar verið er að meta hvers virði árnar eru sem við getum tekið í þjónustu okkar til að skaffa rafmagn og orku. Næstefstu einkunnina erum við í raun og veru búin að fella, það eru Kárahnjúkarnir. Það hefði verið næststærsta verkefnið sem við hefðum átt að standa vörð um ef við ættum að fara eftir rammaáætlun af því tagi sem við erum fyrir mörgum árum búin að setja í gang vinnuna við en hefur alltaf verið á leiðinni og svo tökum við alltaf ákvarðanir áður en áætlunin kemur fram. Það eru fleiri en Sigurður Þórarinsson sem meta og setja í hæsta verndarflokk þessa stórbrotnu á. Hún er líka í þessari sérstöku vinnu sem sett er í gang til að skoða hvað við megum virkja og hvað við eigum að vernda. Þar er hún líka sett efst hvað verndun viðvíkur.

Virðulegi forseti. Ég kom ekki hingað til að halda langa ræðu heldur fyrst og fremst til að taka undir orð flutningsmanns. Aftur vil ég segja að flestallt sem skiptir máli kemur fram í greinargerðinni og ég hvet þingmenn til að lesa hana. Það eru ekki allir sem hafa komið á þetta svæði og það er jafnstórbrotið og hér er lýst. Ég var svo heppin að þegar ég fór um svæðið fyrst, kom að vestan og fór yfir allt svæðið og austur að Snæfelli, var það í stórkostlegu veðri, blár himinn alla daga, hiti allt upp í 25 stig og landið eins og það getur fegurst orðið með allri sinni sérstöðu og öllum sínum andstæðum. Það er mjög mikilvægt að þeir sem ekki hafa farið á svæðið og halda að alltaf sé verið að tala um að það þurfi bara að vernda einhverja auðn lesi a.m.k. frásögn af því hvernig umhverfið er þarna. Það er mjög mikilvægt að þeir sem taka ákvarðanir viti a.m.k. um hvað ákvarðanirnar snúast.