Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 15:06:44 (1120)

2003-11-04 15:06:44# 130. lþ. 20.4 fundur 19. mál: #A friðlýsing Jökulsár á Fjöllum# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og þær undirtektir sem tillagan hefur fengið og stuðning sem fram hefur komið. Ég geri mér meiri vonir um afgreiðslu málsins nú en áður í ljósi þess að hér hafa komið fram eindregnar stuðningsyfirlýsingar þingmanna úr a.m.k. þremur þingflokkum. Ég þykist líka mega vitna til þess að í opinberri umræðu á fundum og í fjölmiðlum, held ég að óhætt sé að segja að slíkar yfirlýsingar hafi komið fram og víðar að. Nú reynir á það í meðferð þingsins á þessu máli á þessum vetri hvaða hugur fylgir máli og hvort unnt er að fá afgreiðslu á málinu, að Alþingi taki grundvallarákvörðunina, setji þetta mál í farveg, þannig að stjórnvöld hafi leiðsögn í þeim efnum, hvert stefna beri með Jökulsá á Fjöllum. Sé hugur manna almennt sá að það komi ekki til greina að raska vatnasviði Jökulsár á Fjöllum með að virkja það vatn, held ég að það væri meira en tímabært og þarft eins og hér hefur rækilega komið fram, að tekið væri af skarið í þeim efnum. Það er alveg ljóst að það mun falla mjög vel að væntanlegum niðurstöðum rammaáætlunar, vera í góðum takti við þær, svo mikið liggur þegar fyrir. Ég held að það nægi að vísa til allra þeirra raka sem hér hafa verið fram sett í umræðunni og koma fram í greinargerð með tillögunni.

Ég vil taka undir það og það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að að sjálfsögðu ber að líta til verulegs hluta Vatnajökuls sem hluta af vatnasviði Jökulsár á Fjöllum. Það er alveg ljóst að Dyngjujökull og upp á Bárðarbungu, norðanvert og norðaustanvert við Bárðarbungu, svæðið umhverfis Kverkfjöll og vestanverður hluti Brúarjökuls og langt inn undir jökulinn tilheyri þessu vatnasviði og eðlilegt að heildinni verði haldið saman, í þeim skilningi að vatnsverndunin og friðlýsingin taki til þessa svæðis í heild. Enda ekkert að því þó friðlýsingar á grundvelli mismunandi ákvarðana skarist sem gerist iðulega. Menn eru að vernda svæði eða friðlýsa þau, stundum í mismunandi tilgangi. Í einu tilviki er verið að hugsa um gróðurfar eða landslag. Í öðru tilviki um vatnafar. Og það liggur að sjálfsögðu í hlutarins eðli að stundum skarast þetta tvennt eða þrennt.

Ég vil einnig taka það fram vegna þess að spurt var um hvað menn sæju fyrir sér varðandi tengingu friðlýsingar á Jökulsá og síðan þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og Vatnajökulsþjóðgarðs og eftir atvikum hugsanlega fleiri verndarsvæði eða þjóðgarða í viðkomandi landshluta, þá er komið inn á það í sjálfri tillögugreininni og það yrði hluti af þeirri undirbúningsvinnu sem stjórnvöldum yrði falið að vinna. En í sjálfu sér held ég að þetta falli vel að þeirri hugsun sem núna er æ meira að ryðja sér til rúms í umhverfisverndarmálum og byggir þar m.a. á alþjóðlegri skilgreiningu og alþjóðlegu starfi, að flokka þjóðgarða og verndarsvæði eftir verndunarstiginu sem þar er á ferðinni, að það sé ekki lengur um að ræða eitthvert annaðhvort eða, annaðhvort sé svæðið alfarið friðað, sé þjóðgarður og öll mannvirkjagerð bönnuð, eða ekki neitt. Heldur séu þetta mismunandi stig verndunar, stundum í mismunandi tilgangi og geti tengst saman og myndað eitt samræmt net.

Það er t.d. enginn vafi á því að eigi að taka stórt svæði norðan og norðaustan jökla til friðunar, það sem eftir er þar til að friða, eru menn væntanlega að tala um verndun þar sem ýmiss konar hefðbundnar nytjar verða áfram leyfðar, eins og beit, veiðar, ferðamennska og annað í þeim dúr. Ég held að engum detti í hug að friða t.d. Vesturöræfi þannig að hreindýraveiðar verði þar ólöglegar, eða friða gróðurlendin alveg norður undir byggð í Norður-Þingeyjarsýslu þannig að bændur geti ekki nýtt hefðbundin beitarlönd. Það þýðir ekki að einhver aukin verndun á grundvelli nýrrar nálgunar og flokkunar geti ekki komið til sögunnar.

Ég vil taka það fram vegna orðalags tillögunnar og þakka sérstaklega hv. 2. þm. Norðaust., Halldóri Blöndal, fyrir að vera afdráttarlausan í þeim efnum að þar á ekkert undan að draga, undan að slá. Það er ekki mín ætlan. En ég vil samt ekki að það misskiljist þannig að ætlunin með þessu orðalagi sé að koma í veg fyrir að menn geti tekið vatn úr uppsprettulindum til heimilisnota eða þess vegna virkja bæjarlæki í einhverjum litlum sprænum, þó þær endi daga sína í Jökulsá. Enda er tillagan miðuð við Jökulsá sjálfa og helstu þverár hennar hvað vatns- og rennslisháttarverndunina snertir til þess að hinum náttúrulegu rennslisháttum árinnar sem slíkrar verði ekki raskað. Það gerist að sjálfsögðu ekki þó menn taki sér vatn í kaffibolla úr lindum og lækjum o.s.frv. Þannig að þetta yrði hluti af því sem menn mundu draga upp.

En afar mikilvægt er að það sé ljóst og skýrt að hér er verið að tala um Jökulsá og allar helstu þverár hennar, ekki bara Kverká og Kreppu sem leggja auðvitað mikið vatn til Jökulsár og eru hluti af náttúru hennar, heldur líka stóru lindárnar sem eru einstök gersemi, margar hverjar, eins og t.d. Svartá, þar sem gríðarlegt vatnsfall kemur upp úr sandauðnum og nær að safnast saman í rennsli upp á tugi rúmmetra á örfárra kílómetra kafla og er einstök upplifun fyrir þá sem ekki hafa þegar skoðað Svartá og fylgt henni frá upptökum og þar til hún sameinast Jökulsá.

Margar stórmerkar lindár og uppsprettur eiga þarna uptök sín á svæðinu, sumar mjög vatnsmiklar eins og Svartá, lindárnar í Hvannalindum, í Herðubreiðarlindum, Grafarlöndum og víðar. Svo koma að sjálfsögðu til sögunnar ár með dragáreðli þegar utar kemur, einkum austar. Þannig að í raun og veru spannar vatnasvið Jökulsár á Fjöllum allar víddirnar og tekur að hluta til til sín vatn úr öllum helstu gerðum fallvatna eða straumvatna sem er að finna á Íslandi.

Svo mikið um það, herra forseti.

Aðeins að lokum. Það er algerlega ljóst og ég held að það þurfi ekki að rökstyðjast frekar eins og hefur komið fram í umræðunum, að Jökulsá á Fjöllum og umhverfi hennar skorar á alla mælikvarða sem þekktir eru, fær yfirleitt hæstu einkunn hvað verndargildi snertir. Þetta hefur átt við um vinnu rammaáætlunar. Þetta kemur skýrt fram í gögnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem hafa verið tekin saman fyrir nefndina sem nú er að störfum varðandi þjóðgarða eða verndarsvæði norðan Vatnajökuls. Þetta hafa ýmsar aðrar úttektir sýnt sem og held ég bara almenn tilfinning manna, almennt mat. Huglægt og tilfinningabundið mat manna fer þarna saman við fræðilega nálgun.

[15:15]

Að síðustu má velta fyrir sér hversu brýnt eða þarft er að taka þessa grundvallarákvörðun. Ég vísa þar til þess sem hér hefur þegar verið nefnt um ýmiss konar virkjunaráform, bæði eldri og yngri. Þau eru til varðandi Jökulsá, a.m.k. af þrennum toga og misgömul. Þar eru hugmyndir um að taka hluta af vatni Jökulsár, t.d. vatn úr Kverká og/eða Kreppu, færa það austur á bóginn, jafnvel þannig að það yrði tekið svo nálægt upptökum að það gæti runnið í Hálslón um göng og orðið hluti af miðlun þar. Í því sambandi hafa menn bent á að aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal úr Hálslóni eru víðari en þau þyrftu að vera ef eingöngu stæði til um aldur og ævi að flytja vatnið úr Jökulsá á Dal einni saman. Af hvaða ástæðum þetta er ætla ég ekki að vera með getgátur um. Færð hafa verið fram þau rök að menn hafi einfaldlega fengið svo hagstætt tilboð í víkkunina að ekki hafi verið hægt að halda aftur af sér með að taka því, að hægt væri að miðla vatni að hluta til til baka í gegnum göngin ef þau væru nógu víð. Alla vega býður það upp á þá hættu að vatn gæti farið um þau víðar að en frá Jökulsá á Dal.

Önnur virkjunaráform miða yfirleitt að því að stífla árnar neðar og taka úr uppistöðulóni sem væri í minni hæð yfir sjó, of lágt til þess að það yrði sameinað Hálslóni. Fyrst og fremst eru menn að horfa á uppistöðulón í Arnardal sem eitt og sér væri stórslys, að eyðileggja þá náttúruperlu. Sú virkjun er yfirleitt í tveimur þrepum, úr Arnardal og yfir á Jökuldal, eftir að hafa notað farveg Jökulsár, þá þurran að mestu eftir Kárahnjúkavirkjun, spottakorn niður eftir dalnum úr öðru inntakslóni, undir Fljótsheiði og yfir í Fljótsdal. Það vatn kæmi út í Löginn skammt neðan við þar sem fyrirhugað er að vatn komi úr Kárahnjúkavirkjun. Færi þá að verða nokkuð mikið um jökulvatn sem kæmi í Löginn og á Héraði ef þar bættist við að miklu leyti vatn Jökulsár á Fjöllum með þverám sínum.

Þessu hafa einmitt tengst hugmyndir um að setja kranann á Dettifoss, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði til áðan. Það er ekki lengra um liðið en svo að ég heyrði menn fabúlera með þessar hugmyndir á heilmiklum fundi þar sem þessi stóru virkjunaráform norðan og norðaustan Vatnajökuls voru kynnt. Þá lét ónefndur fræðimaður það úr úr sér að menn væru hvort sem er þeirrar skoðunar að Dettifoss var einna fallegastur þegar um 180 rúmmetra rennsli væri í ánni. Hann hafði þá fundið kvarða til að mæla fegurðarskyn manna eða meta það. Hugsunin var sú að einhvers konar túristarennsli yrði haft á Dettifossi yfir hásumarið með þessum krana.

Þessar hugmyndir eru raunverulegar. Þær eru ekki bara einhverjir hugarórar einhverra einstaklinga. Þær eru til á blöðum og í skýrslum. Við þær er enn stuðst þegar orkuforðinn í landinu er metinn. Þeir tímar gætu vel verið nær okkur en við höldum að bankað verði upp á með hugsanleg afnot af þessari orku, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi hér áðan.

Þriðja tegund virkjunaráforma Jökulsár á Fjöllum af eldri toga eru þrepavirkjanir þar sem vatnið færi áfram út á svipuðum slóðum norðaustanlands og það gerir í dag. Jökulsá yrði veitt úr farvegi sínum, haldið ofar og virkjuð í einhverjum þrepum, þar á meðal fram hjá Dettifossi og niður í Jökulsárgljúfur.

Hvernig sem á allt saman er litið held ég að því verði varla á móti mælt að æskilegt væri, ef hugur manna stendur til þess að ekki verði bollalagt frekar um virkjun þessa afls, að tekið yrði af skarið með það. Menn geta þá hætt að eyða pappír undir það að hafa þau áform á blaði. Málið á í sjálfu sér ríkan rétt. Mér finnst þetta í raun og veru algerlega sjálfstætt grundvallarmál og eðlilegast að nálgast það fyrst og fremst sem slíkt. Í mínum huga er það ekki á neinn hátt tengt átökum um önnur umhverfismál, hvorki afstaðin né þau sem kunna að vera fram undan. Ákvörðun um að friðlýsa Jökulsá á Fjöllum og vatnasviðið á ekki að vera nein aflausn fyrir vonda samvisku vegna annars heldur á að ganga í það mál sökum þess eigin ágætis og til þess þarf ekki annan rökstuðning eða réttlætingu.

Nú ber svo vel í veiði, herra forseti, að væntanlega kemur náttúruverndaráætlun til umfjöllunar Alþingis á þessum vetri. Ég geri ráð fyrir því að fljótlega í framhaldi af umfjöllun á umhverfisþingi leggi umhvrh. áætlunina fram. Hún gengur þá til umhvn. ásamt þessari tillögu, sem þangað verður vonandi vísað á næstu dögum. Mér finnst ástæða til að gera þá kröfu að þessi mál hljóti samhliða afgreiðslu, sem væntanlega verður fyrir vorið. Í ljósi undirtekta hér geri ég mér miklar vonir og meiri en fyrr um að málið fái farsælan endi.