Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:58:12 (1155)

2003-11-04 17:58:12# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit að okkar færustu sérfræðingar sögðu í umhvn. að það þyrfti mjög að takmarka veiðarnar, um 50--70%, og að það gæti komið til alfriðunar rjúpunnar. Þá voru hins vegar ekki tillögur uppi um það, það er alveg rétt. Þær tillögur koma eftir að menn fara í vortalninguna í vor, líka af því að við báðum um tillögur í ljósi þess að sölubannið var ekki samþykkt. Þá koma tillögur frá okkar færustu sérfræðingum á Náttúrufræðistofnun um að banna veiðar í fimm ár með endurskoðunarákvæðum eftir þrjú ár. Það var ákveðið af okkar hálfu að banna veiðar í þrjú ár í kjölfarið.

Ég geri mér hins vegar líka grein fyrir því að önnur undirstofnun hjá okkur, þ.e. Umhverfisstofnun, er á öðru máli. Þar starfar veiðistjóri sem ber núna starfsheitið yfirmaður veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar. Sú stofnun hefur aðrar áherslur og telur að hægt sé að ná nægilegum árangri án þess að friða rjúpuna. Það töldu ekki sérfræðingar okkar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Ég fór yfir þetta mál með þeim í sumar og þessi varð niðurstaðan. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hópur fólks er ósáttur við þetta og það er kannski aldrei hægt að ná fullkomlega sátt um svona aðgerðir.

Varðandi bændur eiga þeir fulltrúa í þessari sjö manna nefnd hagsmunaaðila sem nú hefur tekið til starfa og þeir munu koma sjónarmiðum sínum á framfæri þar varðandi það í hvaða formi veiðarnar byrja þegar þær byrja aftur eftir þrjú ár. Ég veit að þeir hafa uppi þau sjónarmið m.a. að þeir fái í ríkari mæli en í dag að leigja lönd sín eitthvað svipað og gengur og gerist í laxveiðum þannig að það eru ýmsar hugmyndir sem þeir hafa þar að lútandi.