Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:50:07 (1176)

2003-11-04 18:50:07# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., SKK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég tek til máls um þessa till. til þál. um afléttingu veiðibanns á rjúpu ekki síst vegna þess að ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu. Hv. þm. Gunnar Birgisson gerði í sjálfu sér grein fyrir megininntaki hennar og rökstuðningi fyrir tillögunni og ég leyfi mér að vísa til þeirrar umfjöllunar og greinargerðar með henni, en langar til þess að bæta nokkrum atriðum við henni til stuðnings.

Sú till. til þál. sem hér hefur verið lögð fram er tillaga um það að fundin verði lausn sem rjúpan, veiðimenn, landeigendur og fleiri geta unað við, ekki einungis rjúpan eins og umhverfisverndarsinnar eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vill að gert verði. Þessi tillaga okkar gengur út á það að gripið verði til vægari aðgerða en ákvörðun hæstv. umhvrh. um veiðibann kveður á um, þ.e. að gripið verði til aðgerða sem ekki koma eins hart niður á veiðimönnum, jarðeigendum og öðrum sem eiga hagsmuna að gæta en samt sem áður þannig að réttindi rjúpunnar verði virt og að tryggt verði að ekki verði gengið of hart fram gegn rjúpnastofninum.

Ýmislegt hefur verið sagt úr þessum stól í þessari umræðu og því var m.a. haldið fram af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að hér væri um sýndartillögu að ræða. Það er ekki rétt, hér er ekki um neina sýndartillögu að ræða. Það er einfaldlega verið að krefjast þess og leggja það til að hæstv. umhvrh. breyti fyrri afstöðu sinni og geri það sem hún hefur fulla heimild til að gera, skv. 17. gr. laganna um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, að aflétta veiðibanninu og það er heimild til þess í 17. gr. þessara laga.

Það er reyndar, eins og komið hefur fram í ræðum annarra þingmanna, erfitt að sjá hvar stjórnarandstaðan stendur í þessu máli. Þeir hafa komið hér upp hver um annan þveran og haldið ýmsu fram en ekki sagt sína skoðun. Á ég þá sérstaklega við hv. þingmenn Samf. sem kosið hafa að koma hingað upp og ræða um form málsins. Það gerði t.d. hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og ekki má gleyma hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni sem kom hingað upp og kaus að ræða um jarðgöng. En við vitum ekkert hvaða afstöðu þessir hv. þingmenn eða Samf. hefur til málsins og ég ætlaði mér að leyfa Samf., ekki rjúpunni í þetta skiptið heldur Samf., að njóta vafans en ég gat ekki betur séð en að hv. þm. Jóhann Ársælsson klippti þá niður úr snörunni og ætlaði að styðja okkur í þessu máli.

En mig langaði líka til þess að benda á það að í þessari umræðu hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tekið til máls og ræða hans fól í sér kannski mestu sögulegu pólitísku tíðindin sem komið hafa fram í þessari umræðu vegna þess að hv. þm. lýsti því yfir að hann hefði farið út um allar koppagrundir á Norðausturlandi og skotið rjúpu. Þetta er nú söguleg pólitísk játning frá formanni græningjaflokks á Íslandi sem lýsir því yfir að hann eigi sinn þátt í því að rjúpnastofninn sé í eins slæmum málum og raun ber vitni. Þetta er pólitísk játning og alveg hreint ótrúleg frá þessum ágæta formanni græningjaflokksins, og svo ég noti orð hans sjálfs, snautlegur vitnisburður um hans umhverfispólitík.

(Forseti (JóhS): Það þarf leyfi forseta ef verið er að vitna í eins og hv. þm. gerði.)

Fyrirgefðu, virðulegi forseti. En eins og ég segi, þetta var söguleg pólitísk játning frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Vernd rjúpnastofnsins er í sjálfu sér göfugt markmið og við tillöguflytjendur ætlum okkur ekki hér að ganga milli bols og höfuðs á rjúpnastofninum en við teljum að veiðimenn, landsmenn og jarðeigendur eigi sér einnig nokkurn rétt og að hægt sé að ná fram þeim markmiðum sem veiðibanninu er ætlað að ná með vægari úrræðum en algeru banni. Við teljum að beita beri einhverjum af þeim aðferðum sem fram koma í greinargerð með þáltill. og með því að beita þeim úrræðum þá væri hæstv. ráðherra í sinni embættisfærslu og stjórnsýslu miklu fremur að fara að þeim reglum sem t.d. stjórnsýslulögin kveða á um um meðalhóf í ákvörðunum í málum sem þessum.

En ég vil benda á það í þessari umræðu að þetta er ekki eingöngu mál rjúpnaskyttnanna, veiðibannið kemur líka niður á landeigendum sem hafa fjárfest í jörðum og veiðiréttur eru hlunnindi sem fylgja jarðeignum. Með því að banna alla rjúpnaveiði í þrjú ár er gengið ansi hart gegn réttindum landeigenda sem hafa mjög mikla fjárhagslega þýðingu. Það verður ekkert fram hjá þeim litið og það verður að telja að slík réttindi njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

Það verður líka að taka það með í reikninginn að það eru fleiri hópar sem hafa hér hagsmuna að gæta eins og t.d. rekstraraðilar sportvöruverslana sem hafa sitt lifibrauð af því að selja rjúpnaskyttum þann búnað sem nauðsynlegur er til þess að geta farið á veiðar. (Gripið fram í.) Allt eru þetta hagsmunir sem líta verður til, hæstv. landbrh., þegar ákvörðunin er tekin. En ég tel og við flutningsmenn tillögunnar að hægt sé að ná fram þeim meginmarkmiðum sem veiðibanninu er ætlað að ná, þ.e. að vernda rjúpnastofninn, en það þarf ekki að þýða það að banna þurfi algerlega allar veiðar. Við teljum að hægt sé að grípa til vægari aðgerða en samt sem áður verði hægt að ná fram þeim meginmarkmiðum sem ætlað er að ná með veiðibanninu. Og með því að heimila veiðar tryggjum við að landsmenn og rjúpnaskyttur geti farið á veiðar í haust eða nú í vetur og að landsmenn fái rjúpu á jólaborð sín um þessi jól.