Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 19:27:45 (1188)

2003-11-04 19:27:45# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[19:27]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér hefur átt sér stað ansi sérstök umræða. Hún hefur verið mjög köflótt, má segja, enda er það kannski ekki óeðlilegt af því að tillagan er nokkuð óvenjuleg. Ég tek þetta mál mjög alvarlega þannig að ég vil ekki ræða um það af neinni léttúð. Mig langar í stuttu máli að gera aðeins grein fyrir aðdraganda ákvörðunarinnar um að banna rjúpnaveiðar í þrjú ár af því að mér finnst að þingmenn rugli mjög mörgu saman í þeim aðdraganda.

Árið 2001 fengum við engar sérstakar tillögur um að grípa beri í taumana en þær fáum við árið 2002. Þá er lagt til að veiðin standi yfir í mánuð, þ.e. á því ári, og að sett verði á sölubann sem þarf lagaheimild til. Við ákváðum þá að leggja til 49 daga veiði í fimm ár frá og með þessu ári og freista þess að fá sölubann samþykkt á Alþingi. Það gekk svo ekki eftir. Eftir þessa atburðarás og vortalningar lagði Náttúrufræðistofnun til veiðibann í fimm ár með endurskoðunarmöguleika eftir þrjú ár. Það eru okkar bestu sérfræðingar á sviði fuglamála sem leggja það til.

Ég held að það gæti verið mjög fróðlegt fyrir þingheim að lesa grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst sl. Þetta er mjög löng grein. Hún er eftir Jón Gunnar Ottósson, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, Ólaf K. Nielsen fuglafræðing og Kristin Hauk Skarphéðinsson fuglafræðing. Grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst lýsir mjög vel öllum aðdraganda og stöðunni sem er uppi og af hverju gripið er til þessara aðgerða.

Þannig er að hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands samkvæmt lögum er að meta ástand rjúpnastofnsins. Hún á líka að koma með tillögur varðandi vernd og veiðar og það á Umhverfisstofnun líka að gera. Náttúrufræðistofnun hefur því geysilega stórt og mikilvægt hlutverk varðandi mat á rjúpnastofninum og til hvaða aðgerða eigi að grípa þannig að ég hef tekið mjög mikið mark á sérfræðingum stofnunarinnar.

[19:30]

Það er alveg ljóst að margar ógnir steðja að rjúpnastofninum, m.a. veiði. Meðalveiðin er um það bil 150 þús. fuglar á ári og það eru rúmlega 5 þús. veiðimenn sem skjóta þá. Reyndar eru fáir veiðimenn sem veiða um helming rjúpnanna, þ.e. 10% veiðimanna eru svokallaðir magnveiðimenn og sölubannið átti að taka á þeim. En það er meira en veiðin sem ógnar stofninum. Það er fæðuöflun og það eru tófa og minkur. Núna eru um það bil þrefalt fleiri refir en árið 1970 þannig að refnum hefur fjölgað verulega. Við ætlum að taka á því. Við munum gefa út skipunarbréf fyrir nefnd sem á að endurskoða hvernig við stöndum að refaveiðunum. Við höfum notað um 300 millj. kr. í þær veiðar á síðustu sjö árum og ég mun falast eftir því að nefndin skoði hvort aflétta beri banninu á veiðum á ref í Hornstrandarfriðlandi. Við höfum líka nýlega sett upp skipunarbréf fyrir nefnd sem fer af stað út af minknum og við viljum helst ná því að útrýma honum þó að ég geri mér grein fyrir því að það sé mjög erfitt. Um 200 millj. kr. hafa farið í minkaveiðar á síðustu sjö árum.

Það eru fleiri ógnir, t.d. uppblástur, ofbeit, girðingar og símalínur, sem ógna rjúpnastofninum og ekki má gleyma því að fálkinn tengist afkomu rjúpunnar. Hann er fáliðaður, 300--400 pör, en hann er á válista og við berum ábyrgð á einum stærsta fálkastofni í Evrópu og lífsafkoma hans er algjörlega háð rjúpnastofninum þannig að það er mikilvægt að við lítum einnig til þessa.

Á sínum tíma hélt Náttúrufræðistofnun Íslands að veiðarnar hefðu lítil áhrif en þeir segja núna að það sé ljóst að skotveiðar hafa áhrif. Það er ekki lengur réttlætanlegt að horfa fram hjá þeim og því hefur verið lögð til friðun um fimm ára skeið sem ég hef samþykkt í þrjú ár. Það er vegna þess að núna er uppsveiflan að byrja þannig að núna er lag. Núna er lífvænlegur stofn sem á að geta vaxið með eðlilegum hraða, þ.e. um 50% milli ára en ekki um 20% eins og hann hefur gert upp á síðkastið. Þess vegna ákvað ég að grípa til friðunar. Umhvn. hafði leiðbeiningar um það að grípa til þess að stytta veiðitíma eftir þörfum þannig að hann var styttur niður í núll. Það verður engin veiði samkvæmt ákvörðun minni næstu þrjú árin. Þessari ákvörðun hefur verið tekið fagnandi hjá mörgum en margir eru líka ósáttir við hana og ég hef orðið vör við það, sérstaklega hjá skotveiðimönnum, en ég hef átt mjög gott samstarf við þá og ég sé að þeir hafa verið að fylgjast með umræðunum hér, bæði Sigmar B. Hauksson, formaður Skotvíss, og Einar Haraldsson sem er stjórnarmaður hjá Skotvís. Ég vil sérstaklega taka fram hérna að ég hef átt mjög gott samstarf við Skotvís. Þó að okkur beri ekki saman um allt og hvað eigi að gera hef ég átt ánægjulegt samstarf við þá.

Ég hef fengið nokkrar spurningar hér. Í fyrsta lagi vil ég segja að þetta mál var ekki tekið fyrir í þingflokki Framsfl. í sumar. Rjúpnaveiðibannið var sett á með ákvörðun ráðherra. Þetta er ákvörðun ráðherra og hún á að vera ákvörðun ráðherra samkvæmt lögum þannig að hún var tekin af ráðherra. Hún var ekki tekin fyrir í þingflokkunum.

Ég bjóst við því að þetta mál yrði tekið upp í umhvn. en síðan æxluðust mál þannig að það kom inn í þingið í formi þáltill. Ég var spurð að því hvort ég liti á þetta sem sérstaka traustsyfirlýsingu. Ég get ekki sagt að ég líti á þessa tillögu sem sérstaka traustsyfirlýsingu en ég lít heldur ekki á hana sem sérstaka tillögu um vantraust eða neitt slíkt. Ég lít á hana sem aðferð nokkurra þingmanna við að koma þeirri skoðun sinni á framfæri að þeir séu ósáttir við bannið og við því er ekkert að segja. Menn hafa skiptar skoðanir á þessu. Ég ber fulla virðingu fyrir því ef menn vilja láta sína skoðun í ljósi en ég átti ekki von á því að hún kæmi í tillöguformi inn í þingið. En maður veit ekki sína ævina fyrr en öll er í þessu frekar en öðru.

Verði tillagan samþykkt er spurning hvað verður gert. Ég get eiginlega ekki svarað því alveg á þessari stundu. Ég vil sjá hvernig umhvn. fjallar um tillöguna og hvaða skoðanir hún fær þar. Ég held að ég geti ekkert sagt um það fyrr en ég sé hvernig málin þróast áfram þannig að það verður bara að bíða seinni tíma með að sjá hver afdrif þessarar tillögu verða.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að þetta mál hefur verið stórt í umræðunni. Mér finnst það ekki mjög flókið. Það er flókið en það er ekki mjög flókið samt. Það hefur verið erfitt á margan hátt. Viðbrögðin við því eru ótrúleg. Ég hef aldrei fengið eins mikil viðbrögð í gegnum tölvupóst á netinu hjá mér á siv.is nema í Kárahnjúkamálinu og sjaldan fengið eins mikil viðbrögð úti í samfélaginu eins og á þetta mál. Ég skil það af því að það er bæði tæknilegt og líka mjög tilfinningahlaðið. Við erum mörg hver alin upp við það að borða rjúpur á jólunum --- ég er sjálf í þeim hópi --- og stór hópur manna gengur til rjúpna og hefur ánægju af því þannig að ég skil vel að þetta er umdeilt og erfitt. Ég hef fengið þá einkunn hjá einum að mér hafi tekist það sem Castro tókst ekki, þ.e. að stela jólunum af fólki, en ég bið fólk um að virða að það er einungis gert til þess að menn geti veitt rjúpur til langs tíma. Þá þurfa menn að hemja sig í stuttan tíma, þ.e. í þrjú ár.