Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 14:28:10 (1328)

2003-11-06 14:28:10# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, AKG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem við fjöllum um í dag er mikið alvörumál. Við erum skuldbundin til þess að lögleiða tilskipun Evrópusambandsins um viðskiptafrelsi og í því efni fylgir ákveðinn böggull skammrifi, þ.e. við þurfum að gæta innlendra hagsmuna og í þessu tilfelli hagsmuna íslensks lífríkis og náttúru.

Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni í dag að tíminn til undirbúnings þessa máls hafi verið skammur. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þeim fullyrðingum og því til sönnunar ætla ég að leyfa mér, herra forseti, að lesa upp úr bréfi frá landbrn. til Eftirlitsstofnunar EFTA. Það bréf er dagsett 30. september árið 2002, en í bréfinu er eftirfarandi tilvísun í þýðingu:

[14:30]

,,Eins og sagt er í bréfi ráðuneytisins frá 10. maí 2002 hefur lagafrumvarp og reglugerð nú þegar verið samin.``

Herra forseti. Málið hefur verið í vinnslu í ráðuneytinu lengur en frá 10. maí, því samkvæmt bréfi ráðuneytisins er þá þegar tilbúið lagafrv. og reglugerðir. Tíminn hefur því verið nægur, enda lá það ljóst fyrir fyrir löngu að við þyrftum að staðfesta þessa tilskipun Evrópusambandsins. En tíminn hefur hins vegar verið afar illa nýttur, herra forseti. Og þess vegna erum við í þessum ég vil eiginlega segja ógöngum í dag og þó ekki eingöngu þess vegna því við höfum eins og fram hefur komið í máli ræðumanna hér í dag fengið endurteknar ábendingar og áminningar frá Eftirlitsstofnun EFTA. Við höfum ítrekað fengið frest til að skila þessu verki af okkur og við nýttum heldur ekki það ráðrúm sem okkur gafst á þingi eftir síðustu kosningar til að ganga í þetta verk. Get ég þó fullyrt að það var fullur vilji stjórnarandstöðuflokkanna að taka til starfa strax eftir kosningar. En þess var ekki óskað, herra forseti. Þess í stað eru það hagsmunir útflytjenda og ég vil leyfa mér að segja skammtímaviðskiptahagsmunir sem réðu því að þetta mál var tekið til umræðu í sumar og sett á bráðabirgðalög.

Ég segi skammtímaviðskiptahagsmunir því að á hinn bóginn erum við með miklu meiri langtímaviðskiptahagsmuni. Við erum með tölur upp á 6,5 milljónir í útflutning á laxaseiðum frá áramótum samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og í morgun barst okkur í landbn. leiðrétting á fyrri upplýsingum um að þessi upphæð væri 27 milljónir, en það sem þarna fór á milli mála voru viðskipti við Chile, þannig að upplýsingar Hagstofunnar eru að sjálfsögðu réttar. Á hinn bóginn erum við að tala um 3 milljarða í árlegar tekjur af sölu laxveiðileyfa á Íslandi og margföldum þá upphæð í varanlegan skaða ef við skemmum íslenska laxastofninn.

Það er skoðun mín, herra forseti, að nál. meiri hlutans sé í raun áfellisdómur yfir vinnubrögðum landbrh. í þessu dæmi og ég ætla í því efni að vitna í álitið, með leyfi forseta. Á bls. 2 stendur:

,,Meiri hlutinn telur að við samningu frumvarpsins hafi ekki verið nægilega gætt að ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, þar sem segir að hverju frumvarpi skuli fylgja greinargerð um tilgang þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum þess.``

Það lá sem sagt ekki skýrt fyrir í sumar þegar þetta var tekið fyrir hjá landbn. hver raunverulegur tilgangur þess var og hverjar skýringar á höfuðákvæðum þess voru.

Einnig segir í sama áliti á bls. 3, með leyfi forseta:

,,Að teknu tilliti til framangreindra umhverfis- og verndarsjónarmiða telur meiri hlutinn nauðsynlegt, með hliðsjón af umsögn umhverfisnefndar og þrátt fyrir fjölmörg ákvæði í gildandi lögum um verndun staðbundinna stofna, að leggja til að við frumvarpið verði bætt öryggisákvæði.``

Í meðferð sinni hefur landbn. bætt inn þessum öryggis\-ákvæðum og það er eftirtektarvert, herra forseti, að við frv. eru gerðar sex efnislegar brtt. Mér finnst það talsvert mikið, herra forseti, og segja mikið um hvernig hefur verið staðið að verki við samningu frv. í upphafi.

Eins og segir í áliti minni hluta landbn. er með þeim bráðabirgðalögum búið að galopna fyrir innflutning á lifandi fiskum til Íslands. Ég ætla að leyfa mér að vitna í umsögn okkar úr minni hluta landbn., herra forseti, en þar segir á bls. 5:

,,Í minnisblaði Náttúrufræðistofnunar til umhverfisnefndar Alþingis segir að með bráðabirgðalögunum hafi verið heimilaður innflutningur á lifandi fiski, krabbadýrum og lindýrum, sem áður var bannaður, en landbúnaðarráðherra gat veitt undanþágur að fengnum umsögnum frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt meðmælum yfirdýralæknis. Þetta þýðir að á meðan umhverfisráðherra hefur ekki sett reglugerð um innflutning dýra (eins og honum ber að gera samkvæmt lögum) er innflutningur á ,,lifandi fiski, krabbadýrum og lindýrum`` heimill án leyfa og ekki þarf neinar umsagnir eða meðmæli. Bráðabirgðalögin galopna þannig fyrir óheftan innflutning á lífverum sem geta skaðað lífríki í fersku vatni á Íslandi.``

Ég tel að hér sé mikil hætta á ferðum fyrir íslenskt lífríki. Ég ætla að leyfa mér að spyrja hæstv. umhvrh., sem því miður er hér ekki lengur, en ég ætla samt að vona að hún heyri í mér og sjái ástæðu til að svara þingheimi þótt síðar verði: Hvernig stendur á því að umhvrh. hefur ekki sett reglugerð um innflutning dýra eins og henni ber að gera lögum samkvæmt? Hvernig stendur á því, hæstv. umhvrh.? Og ég ætla að líka að leyfa mér að spyrja umhvrh. hvort hún ætli sér ekki að setja slíka reglugerð og hvort ekki hljóti að teljast rík ástæða til að staðið sé við það lagaákvæði sem hér er vitnað til?

Vitnað hefur verið í umræður um veiðar á rjúpu fyrir tveim dögum, rjúpnaveiðibannið svokallaða. Þar var lítils háttar intermezzó um það lagafrv. sem hér er til umræðu og í því intermezzói sagði hæstv. landbrh. að hann hefði vandað sig mjög mikið við þá lagasetningu sem við fjöllum um í dag. Ég verð að segja, herra forseti, að ég tel að bæði nál. meiri hlutans og nál. minni hlutans séu í raun áfellisdómur um vinnubrögð landbrh. Ég get í meginatriðum verið sammála nál. meiri hluta landbn., enda voru vinnubrögðin og samvinnan í nefndinni ákaflega góð eins og margoft hefur komið fram. En við í minni hlutanum teljum hins vegar að ekki sé gengið nógu langt til verndar íslenskri náttúru og viljum fara allar þær leiðir sem við teljum færar til að koma í veg fyrir að hér verði stórslys. En við teljum vinnubrögðin vera losaraleg og í raun alls ekki sæmandi hinu háa Alþingi eins og þau birtast okkur og skýrt kemur fram í nál. bæði meiri hluta og minni hluta.

Í rauninni er mjög athyglisvert, herra forseti, og ég ætla að láta það vera mín síðustu orð í dag, að það hefur enginn ráðherra og í rauninni enginn þingmaður úr stjórnarliðinu heldur tekið að sér að verja þessa lagasetningu hér í dag. (ÞBack: Nákvæmlega.) Segir það ekki mikla sögu?