Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:07:36 (1353)

2003-11-06 16:07:36# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona satt að segja að tölurnar sem fram koma í svari hæstv. landbrh. séu rangar, einfaldlega vegna þess að ég trúi því ekki eða á mjög erfitt með að trúa því að rúmlega 700 þús. fiskar sem settir hafa verið út í kví í firðinum fyrir austan séu annaðhvort dauðir eða hafi synt í burtu. Vonandi eru þessar tölur rangar og ég mundi fagna því ef hægt væri að koma inn í sali Alþingis og benda mér á að þær tölur sem lagðar voru fram á umræddu þskj. væru ekki réttar.

En meðan við höfum þessar tölur í höndunum og meðan það lítur út fyrir að þarna séu um 724 þús. fiskar sem ekki hefur verið slátrað en hafa verið settir ofan í kvíarnar og séu þar ekki lengur hljótum við að spyrja bæði hæstv. landbrh. og hæstv. umhvrh.: Hvað hefur orðið um þennan fisk?