Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 17:01:21 (1364)

2003-11-06 17:01:21# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[17:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað sem er meint og hvað sem menn sögðu þá fer norski laxinn ofan í Lón í Kelduhverfi 1984, ofan í Eyjafjörð 1991 eða 1992 og ofan í Austfirði þannig að t.d. á jafnræðisreglu hefðu menn sennilega getað kært sig ofan í Faxaflóa eða Hvalfjörð þegar sá sem hér stendur tók við. Þessu öllu til öryggis hef ég t.d. lokað flestum fjörðum landsins. Ég sýndi hér kortið af lokuðum fjörðum. Menn mega vera þar með ófrjóan lax en ég mun loka því með reglugerð á næstu dögum þannig að hvorki verði frjór né ófrjór lax á þessum stöðum.

Heiðursmannasamkomulag er gott. Eitthvert slíkt er talað um að hafi orðið til og ég hef séð ályktun. Það er eins og ályktun frá góðum fundi. Ég hef orðið að stjórna þessu með lögum frá Alþingi og reglugerðum. Ég var ekki að ásaka hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Ég var að segja frá því merkilega starfi sem hann vann við að fá peninga frá ríkinu til þess að efla og kynbæta norska eldislaxinn sem hér var fluttur inn með 15 millj. kr. sinnum fimm ár. Ég var ekkert að ásaka hann fyrir það. Frammi fyrir þessu öllu stóð ég og ég var árið 2000 með Alþingi á bak við mig í því sem ég hef gert í þessum efnum. En norski laxinn var kominn ofan í þessa firði. Því var mjög eðlilegt að styrkja þessa atvinnusköpun og nýta þennan stofn og hann færi þá ofan í örfáa langa, djúpa og fallega firði.