Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:27:17 (1387)

2003-11-06 18:27:17# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi spurningu til mín og ég vil svara henni þannig að við verðum alltaf að tvískipta umræðu um öryggismál. Annars vegar er það spurningin um varanlega varnarhagsmuni Íslendinga, sem eru óháðir því sem upp á kemur á alheimsvettvanginum, og við verðum að skilgreina með grundvallarhagsmuni okkar í huga. Þeir hagsmunir eru áfram aðildin að NATO, varnarsamningurinn við Bandaríkin og einnig, að okkar mati í Samf., að við nálgumst Evrópusambandið og fulla aðild að því, ef um semst, út frá íslenskum grundvallarforsendum.

Á hinn bóginn eigum við á grundvelli þessara varanlegu öryggishagsmuna að skilgreina og að sjálfsögðu móta okkur sjálfstæða utanríkisstefnu og taka afstöðu til einstakra atburða og einstakra hluta. Þar erum við t.d. ósammála hæstv. ríkisstjórn um stefnuna gagnvart Írak og í öðrum málum, og auðvitað verða menn að taka sjálfstæða afstöðu til þess. Innan NATO eru 26 ríki og okkur er kunnugt um að þar eru oft mjög beinskeyttar og harðar umræður. Ég held að það sé ómögulega hægt að segja að land eins og t.d. Frakkland sé endilega alltaf á bandi Bandaríkjastjórnar og að Bandaríkin ráði lögum og lofum innan NATO, enda þótt það hljóti náttúrlega að verða að taka tillit til þess í sumum málum að þeir eru mesta hernaðarveldi heimsins.