Starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 13:33:13 (1452)

2003-11-11 13:33:13# 130. lþ. 24.91 fundur 132#B starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna svars sem mér barst á þskj. 221 við fsp. um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun. Frú forseti. Ég verð að segja að það kom mér verulega á óvart að fá þær upplýsingar sem þar koma fram um starfslokasamninga tveggja forstjóra Byggðastofnunar sem hættu störfum á tveggja ára tímabili og hafa kostað Byggðastofnun tæpar 70 millj. kr. Annar forstjórinn, sá sem hætti um aldamótin, hefur fengið rúmlega 92 millj. kr. lífeyrisréttindi vegna sérstakra samninga sem hann hefur náð. Eru lífeyrishlunnindi hans þannig að hann öðlast 20% af launum sínum eftir eins árs starf og eftir 15 ára starf er hann kominn með 90% af launum á meðan menn öðlast almennt aðeins 2% eftir eitt ár, þ.e. almenningur, og 30% eftir 15 ár.

Það sem ég ætlaði aðallega að gera að umræðuefni er að vekja athygli á þessum ótrúlegu starfslokasamningum en ég velti fyrir mér, frú forseti, hvort almennt séu starfslokasamningar hjá ríkinu í þessu veru. Tíðkast þeir eða eru þeir bara hjá Byggðastofnun? Fá aðrir svona samninga og hvernig er með konur, fá þær svona samninga?

Ég óskaði eftir því, frú forseti, að jafnréttisráðherra yrði hér viðstaddur vegna þess að þessa dagana er verið að semja við framkvæmdastýru Jafnréttisstofu sem var búin að vera við störf í þrjú ár og það á að bjóða henni 6 mánaða laun. Við skulum bara bera það saman við síðari forstjóra hjá Byggðastofnun sem fær 20 millj. kr. í sinn starfslokasamning eftir eins og hálfs árs starf. Ég vil gjarnan fá viðbrögð ráðherra við þessum mismun.

(Forseti (JBjart): Forseti minnir hv. þingmenn á að halda sig innan tímaramma.)