Styrktarsjóður námsmanna

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:31:30 (1493)

2003-11-11 16:31:30# 130. lþ. 24.12 fundur 133. mál: #A styrktarsjóður námsmanna# frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir efnislegar undirtektir við frv. en verð þó að leiðrétta eitt hjá honum því það er ekkert fátítt að stjórnarsinnar flytji þingmál. Ég hygg að sjálfur hafi ég flutt á þeim rúmum átta árum sem ég hef verið á þingi milli 40 og 50 þingmál sem ég hlýt sjálfur að trúa á að séu öll til framfara og gildir þannig um marga aðra stjórnarþingmenn. Hins vegar er það einkenni á þingmannamálum að fæst þeirra komast áfram þó að vissulega hafi sum af mínum málum til allrar hamingju komist áfram.

En það sem skiptir mestu máli hér er efni frv. og um það hygg ég að við séum ekki ósammála, ég og hv. þm. Þetta snýr að því að við höfum of mikið og eingöngu mænt á það að hið opinbera komi með fjármagn og við stöndum tiltölulega vel að því með því merka fyrirbrigði sem er Lánasjóður íslenskra námsmanna. Við höfum hins vegar ekki horft nægjanlega eða af nægjanlegri athygli á einkageirann sem hefur óþægilega mikið setið hjá, setið auðum höndum öfugt við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Ég hygg að ein ástæða þess sé sú að vettvangurinn fyrir fyrirtækin í landinu til þess að leggja fé til málefna eins og þessa hafi ekki verið til staðar og það er e.t.v. meginhugsunin á bak við þennan sjóð að búa til þann farveg og þess vegna er skattafslátturinn einnig spyrtur saman við þetta.

En að sjálfsögðu, eins og hv. þm. benti réttilega á, er það sameiginleg samfélagsleg ábyrgð okkar allra í samfélaginu, hins opinbera, atvinnulífsins, einkageirans, að sjá til þess að hér þrífist sem allra blómlegast og voldugast menntakerfi því að það er jú besta fjárfestingin. Þar greinir mig og hv. þm. ekki á.