Umferðarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:56:36 (1502)

2003-11-11 16:56:36# 130. lþ. 24.13 fundur 134. mál: #A umferðarlög# (hægri beygja á móti rauðu ljósi) frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað gerir sá þingmaður sem hér stendur ráð fyrir því að það frv. sem hér er flutt eins og önnur þau frv. sem flutt eru á hinu háa Alþingi séu flutt af góðum hug og til að stuðla að framförum. Það sem ég vakti athygli á er sú hætta sem af breytingunni kann að stafa og spurði einfaldlega eftir umferðaröryggisþætti málsins. Og ég fékk ekki betur heyrt af frummælanda og tillöguflytjanda í upphafsorðum hans en að hann leitaðist við að gera lítið úr sjónarmiðum sérfræðinga í umferðaröryggismálum og hlýt einfaldlega að spyrja hvaða afstöðu aðilar eins og Umferðarstofa og aðrir sérfræðingar okkar í umferðaröryggismálum hafa haft til frv. þegar það hefur áður komið fram. Á því áliti hljóta menn að taka mark og slíkt álit hljóta menn að taka af fullri alvöru því eins og ég sagði fyrr er hér um líf og heilsu fólks að tefla.