Sjálfstæði Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:34:49 (2197)

2003-11-27 10:34:49# 130. lþ. 36.91 fundur 186#B sjálfstæði Ríkisútvarpsins# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:34]

Mörður Árnason:

Forseti. Hér um daginn var mikil umræða um fjölmiðla og miklar áhyggjur hafðar af samþjöppun eignarhalds. Fulltrúar allra flokka lýstu sig samferða í slíkum áhyggjum af því hverju sú þróun gæti valdið um sjálfstæði ritstjórna, um skoðanamyndun í landinu. Þar á meðal voru jafnvel fulltrúar þeirra flokka sem ekki hafa áður lýst sérstökum áhuga á sjálfstæði fjölmiðla eða þröngu eignarhaldi. Sum bættu hér við af okkur þingmönnum að við ættum e.t.v. að byrja í túninu heima, byrja á að tryggja að Ríkisútvarpið, sem er sameiginleg stofnun löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, væri raunverulega sjálfstætt og óháð. Aðrir þingmenn undruðust þetta.

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Friðrik Pál Jónsson, einn virtasta fréttamann og starfsmann Ríkisútvarpsins, varafréttastjóra fréttastofu útvarps og stjórnanda Spegilsins. Hann segir þetta um skipulagsbreytingar og aðgerðir sem hafa verið til umræðu í útvarpi og nú hefur verið samþykkt að fela tilteknum yfirmönnum í útvarpinu, með leyfi forseta:

,,Þessar væntanlegu skipulagsbreytingar má rekja til rógsherferðar útvarpsstjóra sem sett var í hærri gír í útvarpsráði.``

Hann segir enn fremur:

,,Ég sé það hverjir spila þarna saman. Þetta eru Markús útvarpsstjóri, Gunnlaugur, formaður útvarpsráðs, og síðan er þetta upprunnið að við teljum hjá Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Við undrumst mest að fulltrúi Framsóknarflokksins í útvarpsráði skuli taka þátt í þessari rógsherferð,`` segir Friðrik Páll.

Hann segir enn fremur:

,,Annaðhvort munu boðaðar breytingar ekki hafa nein áhrif á vinnu okkar`` --- þ.e. á Speglinum --- ,,eða að það á að koma á vísi að ritskoðun þar sem yfirmanni fréttasviðs verður ætlað að vera með puttana í okkar vinnu.``

Þetta þurfum við að ræða hér á löggjafarsamkomunni. Framkvæmdarvaldið virðist ekki ætla að gera neitt í þessu og hluti þess ber meira að segja bumbur á sinni heimasíðu sem verða tilefni að þeim aðgerðum sem litið er á sem rógsherferð og vísi að ritskoðun á Ríkisútvarpinu.

Forseti. Þetta er óþolandi og þetta þurfum við að ræða á Alþingi bæði núna og sem fyrst með formlegum hætti.