Sjálfstæði Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:46:48 (2203)

2003-11-27 10:46:48# 130. lþ. 36.91 fundur 186#B sjálfstæði Ríkisútvarpsins# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Viðbrögð varaformanns Sjálfstfl. og starfandi hæstv. menntmrh. voru eftirtektarverð við þessari efnislegu umræðu. Hann hafði mest til málanna að leggja að vanda um fyrir þingmönnum vegna orðavals en ekki var aukatekið orð efnislega um þetta mál. Fyrirspurnirnar lutu að þeirri spurningu hvort það gæti hreinlega verið að ríkisstjórnarflokkarnir væru að beita pólitísku valdi sínu innan þessarar stofnunar, sem er sannarlega til staðar og enginn deilir um, með þeim hætti að gera skipan mála sér þóknanlega. Það ylli spurningum og tortryggni.

Ég rifja það upp, frú forseti, í ljósi þess að hæstv. fjmrh. var hér þykkjuþungur og nánast móðgaður. Við höfum heldur betur heyrt úr þessum ræðustól einkunnagjafirnar gagnvart öðrum miðlum. Það er eins og mig reki minni til þess að hæstv. forsrh. og raunar fleiri stjórnarliðar hafi farið mikinn yfir eignarhaldi á Fréttablaðinu, og verið með ýmsar meiningar um það hvar það stæði í hinni pólitísku orrahríð svo að ég tali nú ekki um Stöð 2. Það er því ekki í fyrsta skipti sem menn hafa sett á einkunnagjöf til eða frá. Rifjum það upp hér og nú að Ríkisútvarpið er í okkar höndum og okkar eigu og við eigum að fylgjast með og gæta að að þar verði rétt og vel staðið að málum, lögum samkvæmt. Það er því nákvæmlega þetta eftirlitshlutverk sem við eigum að hafa hér með höndum og við erum að vekja máls á. Ég bið hæstv. fjmrh., varaformann Sjálfstfl., að halda ró sinni og koma hér málefnalega inn í þessa umræðu í stað þess að vera nánast móðgaður yfir því að menn leyfi sér að hreyfa við óþægilegum málum. Hann verður bara að venja sig á að lifa við slíkar staðreyndir.

Þeir geta kannski hjálpað honum, vinir hans í Sjálfstfl., sem vilja hreinlega leysa málið með því að selja pakkann.